Aukin órói hefur mælst sunnan við og undir Mýrdalsjökli í dag. Sérfræðingar telja að hugsanlegt sé að vatn valdi óróanum. Ekki lítur út fyrir að gos sé að hefjast.
Búið er að gera Almannavörnum viðvart og er áætlað að fljúga yfir jökulinn í kvöld til að kanna aðstæður. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur segir ekki ljóst hvað sé þarna á seyði. Þetta sé órói sem hafi byrjað klukkan þrjú og hann líkist svolítið því sem gerist þegar vatn sé að renna. Hann segir að ekki sé vitað nákvæmlega hvað þetta sé. Ekkert hlaup sé komið fram undan jöklinum. Magnús Tumi segir þetta ekki neinn stóratburð. Þetta geti verið vatnshlaup, þetta geti hugsanlega verið einhver órói í jarðhitakerfi þó það sé ekki vitað. Þá sé ekki hægt að útiloka að þetta sé kvika á hreyfingu. Magnús Tumi segir ekki hægt að fullyrða að þarna sé ekki að hefjast eldgos en þetta sé ekki eins og byrjun á Kötlugosi. Óróinn sé veikari en sá sem fylgt hafi hlaupinu í Múlakvísl í sumar.
Virkni undir Mýrdalsjökli hefur aukist eftir að það hljóp í Múlakvísl í sumar og hafa um 800 skjálftar mælst á svæðinu það sem af er ári. Til samanburðar mældust 300 skjálftar þar í fyrra. Magnús Tumi segir erfitt að segja til um hvað það sé nákvæmlega. Það geti verið að kvika sé að safnast fyrir undir fjallinu og spenna að aukast. Hann segir að full ástæða sé til að vera við öllu búinn en þetta þurfi ekki að enda með eldgosi.