„Þarna er mannkynið að fara í einhverja þveröfuga átt við það sem maður hélt að menn ætluðu að gera. Það eiga að vera til rafmyntir sem eru ekki jafn orkufrekar en það eru ofboðsleg vonbrigði að við skulum vera að fórna Svartá og Hvalá inn í einhverja hít sem er hugsanlega bara skammvinn bóla," segir Andri Snær Magnason um gagnaver og Bitcoin rafmyntina. Hann hvetur orkumálastjóra til að nota rödd sína á heimsvísu til að benda á að orkufrekar rafmyntir séu ekki framtíðin.
Andri snær Magnason, rithöfundur og umhverfissinni, hefur að undanförnu í skrifum og viðtölum í fjölmiðlum talað mikið um þá sóun á orku sem fylgir því að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin. Í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði Andri Snær að rafmyntir séu í grunninn spennandi fyrirbæri.
„Þetta er áhugaverð hugmynd, að það sé hægt að dáleiða okkur til að trúa á að eitthvað sé verðmætt og að ef allir trúa því þá sé það orðið verðmætt. Maður var frekar jákvæður gagnvart þessu en vonbrigðin voru að menn skyldu ákveða að þetta ætti að vera orkufrekur iðnaður. Það eru gríðarlega flóknar og miklar tölvur að leysa ákveðnar gátur eða formúlur og svo finna þeir einhvern demant sem er síðan vottaður af einhverjum hópi manna. Hérlendis hefur verið talað um gagnaver en í raun eru þetta ekki gagnaver, það eru ekki gögn sem eru geymd í þessu. Þetta eru bara ofurtölvur eða stæður af tölvum sem malla í þessu allan sólarhringinn. Síðan hefur verið hrun á þessum markaði á síðustu mánuðum og menn vita í raun ekki hvar það endar. Mjög líklega verður einhver rafmynt að lokum stór," sagði Andri Snær. „Kannski mun eitthvað af þessari tækni nýtast en líklega ekki þessi ver sem verið er að setja upp núna því menn eyðileggja þessar tölvur á 2-3 árum á meðan þeir eru að brenna þær upp í þetta Bitcoin. Þannig að jafnvel fjárfestingin og innviðirnir sem eru lagðir í þetta núna eru ekkert að fara að nýtast eftir þrjú ár."
Látum af hendi náttúruperlur til að leita að lofti
„En mín viðbrögð eru í raun gagnvart orkumálastjóra sem hefur talað um að við þyrftum að láta af hendi okkar hreinu orku í þetta." Þar vísar Andri Snær meðal annars til Jólaerindis Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra. „Ég hef fylgst með baráttunni fyrir Svartá en þar eru menn að berjast fyrir tíu megawatta virkjun. Svo kemst maður að því að það eru hundrað megawött á Íslandi sem fara í að leita að Bitcoin, sem er einhver sýndarveruleiki. Hvar erum við ef menn eiga að láta af hendi náttúruperlur til þess að leita að einhverju lofti sem mjög margir leiðandi sérfræðingar í heiminum telja að sé bóla. Ef maður síðan horfir á það hversu miklu er eytt í leit að Bitcoin á heimsvísu, það eru ótrúlegar tölur. Bitcoin er orðið stærra en mörg þjóðríki. Þetta er eitthvað sem nýtist nánast ekki neitt, það eru mjög fáir sem taka við þessu sem greiðslu, en ein greiðsla með þessum bitum er eins og 200 þúsund Visagreiðslur í orkunotkun. Á heimsvísu var námugröfturinn í heild sinni farinn að nálgast hundrað terawattstundir. Þú getur lagt allt vatnsafl Íslands þrisvar undir og þá værum við ekki búin að jafna upp það sem þetta Bitcoin notaði á heimsvísu. Síðan kemur hrunið og þá allt í einu fara margir á hausinn og nú er þetta komið niður í kannski 60 terawattstundir á heimsvísu sem er eins og Singapúr. Síðan er það spurning hvort þetta samrýmist loftslagsáherslum eða hvert heimurinn ætti að vera að fara í orkumálum. Það er talað um að þetta bit-dæmi hafi í raun þurrkað út árangur af endurnýjanlegum orkugjöfum á síðustu árum; sólarorku, vindorku og slíku. Allt í einu kemur einhver reikniformúla og fullt af nördum eru í einhverjum herbergjum að leita að þessu og allt í einu er búið að sóa einhverju jafngildi þjóðríkis út af einhverri jaðarbólu. Maður hélt að þessi gagnaver væru að geyma gögn en langflest eru að laða til landsins ævintýramenn," segir Andri Snær og líkir þessu við Klondike gullæðið. Það megi spyrja sig hvort það sé hreinlega skaðminna að eyða orkunni í stóriðju. „Orkumálastjóri segir okkur að láta af þessari fossadýrkun og ganga skynseminni á hönd og bjarga heiminum með því að gefa árnar frá okkur en á meðan heimurinn er á þessari gríðarlegu sóunarbraut er spurning hvort það sé réttlætanlegt. Ef orkumálastjóri vildi nota rödd sína á heimsvísu, ef hann vildi virkilega gera gagn og minnka útblástur og losun og losa um orkukerfi heimsins þá ætti hann kannski að vera einn af þeim fyrstu sem talaði fyrir því að orkufrekar rafmyntir væru ekki framtíðin. Oft eru menn að sá einhverjum ranghugmyndum um okkar hlutverk í heiminum og hvað við getum gert. Sérstaða náttúru okkar er mælanleg á heimsvísu en orkuframleiðslan hverfur algjörlega inn í einhverja hít. Við eigum fyrst og fremst að vera á þeim stað þar sem við komum í veg fyrir sóunina og varðveitum fegurðina. Þar getur verið fordæmi."