Inga Björk Bjarnadóttir fjallar um sýningu Leifs Ýmis Eyjólfssonar, sýninguna Handrit sem nú stendur yfir í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.


Inga Björk Bjarnadóttir skrifar:

Orð þýða stundum meira en það sem þau standa fyrir, og gera það eiginlega oft. Við notum þau til þess að segja það sem ekki getur verið sagt berum orðum; Ég ætlaði að skila þessu verkefni af mér í dag en ég gleymdi mér yfir nýrri Netflix-sjónvarpsseríu svo ég lýg að það hafi verið brjálað að gera. Ég nenni ekki að hitta þig þótt við höfum verið vinir í menntaskóla svo ég sting upp á kaffibolla við tækifæri. Ég get ekki borgað þér laun en kannski geturðu skrifað um þetta á Facebook síðuna þína, þannig að þetta er í raun mjög gott tækifæri fyrir þig. Við notum orðin og setningarnar líka til að fylla upp í þagnir. Jæja. Þú segir það já. Þetta er nú meira ástandið. 

Þetta er viðfangsefni listamannsins Leifs Ýmis Eyjólfssonar sem hefur komið sér fyrir í D-sal Listasafns Reykjavíkur með sýninguna Handrit. Brúnum leirplötum, hverri á sinni viðarhillu, hefur verið raðað frá gólfi til rjáfurs í rýminu og var fyrsta upplifunin af því að ganga inn svolítið eins og að koma inn á skjalasafn eða í einhvers konar arkíf, þar sem endalausar raðir af jarðlitum plötum með jöfnu millibili taka á móti manni. Þær eru á þriðja hundrað og magnið er yfirþyrmandi við fyrstu sýn. Svo fanga augun setningar, setningabrot og orð á hverri og einni plötu og þær hætta samstundis að vera einsleitar og tilbrigðalausar og fá hver og ein sinn raddblæ. Þær skipta nánast um lit þegar orðin, sem hafa verið máluð með handskrift Leifs Ýmis í leirinn, birtast manni:

Bíddu bara — nánast eins og hótun

Svona svona — samúðarfullt en um leið þaggandi

Hvar endar þetta — hneykslun, blönduð uppgjöf

Óþarfi að vera að hafa eitthvað fyrir mér — það sem allar ömmur þessa lands hafa einhvern tímann sagt

Nei nei — getur þýtt svo ótal margt eftir hvaða raddblær fylgir

Tökum kaffi við tækifæri — það sem fólk segir þegar það hittir fólk sem það nennir alls ekki að hitta í kaffi

Arkíf af þjóðarsálinni

Þessar hversdagslegu setningar, setningabrot og orð, eru afrakstur söfnunar sem Leifur Ýmir hefur stundað síðustu misseri. Arkíf af uppfyllingarefni í samræðum, orðum sem þýða allt og ekkert og setningum sem ekkert er meint með. Sumir frasarnir hafa mjög sterka menningarlega skírskotun og eru næstum eins og hluti af þjóðarsálinni. Orðið jæja. Þetta alhliða uppfyllingarorð í samræðum, sem reynist ómögulegt að þýða, er sagt við hin ýmsu tilefni og þýðir allt mögulegt:

Jæja ertu að koma? Jæja hvað segirðu?

Jæja já, það er skrítið? Jæja drífum í þessu.

Jæja, fáum okkur bara meira kaffi.

Sumar setningarnar eru beinlínis stórfurðulegar þegar maður klýfur þær niður í orð og skoðar nánar: Ertu á landinu? Á landinu? Hvernig veit viðmælandi um hvaða land er rætt? eða: Úff ég er alveg búinn á því. Búinn? Á hverju? Af hverju í ósköpunum þýðir þetta að vera þreyttur? Spurning hvort við sjáum ekki bara til. Spurning, hvort, við, sjáum, ekki, bara, til? Orðin hvert fyrir sig, sett saman í setningu, eru í raun og veru óskiljanleg en setningin sem heild, í menningarlegu samhengi, þýðir það sem hún þýðir og við vitum hvað hún þýðir. Bara af því bara.

En á sama tíma og frasarnir sem Leifur Ýmir dregur fram eru hluti af hversdagslífi okkar allra er sýningin ofboðslega persónuleg. Það glyttir til dæmis í veruleika blanka listamannsins við og við: þetta er gott tækifæri, oft sagt þegar menn vilja ekki borga listamönnum laun. Ég splæsi ef þú getur lánað mér, og: Nennirðu að leggja inn á mig. Maður heyrir nánast samtölin, getur sér til um samhengi þeirra og sér fyrir sér listamanninn skrásetja setningar á börum, á vinnustofum annarra listamanna, í matvörubúðinni og þar fram eftir götum.

Við og við skína sterkar tilfinningar í gegnum setningarnar, setningabrotin og orðin, og kalla fram hughrif eins og við værum að lesa ljóð. Kvíðinn lætur á sér kræla, einmanaleikinn og söknuðurinn. Mannleg tilvist opinberast og holdgervist í sundurslitnum samræðum sem listamaðurinn hefur átt í, og örugglega hlerað líka, síðustu ár. Þessi sýning er á sama tíma óður til hversdagsleikans og ádeila á innihaldslausar samræður sem fylla dagana — samræður um allt og ekkert. Þótt leirplöturnar séu dálítið eins og sundurslitin ljóð segir Leifur að ein af aðferðunum til að sigta út setningar fyrir sýninguna hafi verið að þær máttu alls ekki vera ljóðrænar. En bókamenntavísanirnar eru til staðar, eins og í sumum af fyrri verkum Leifs. Titill sýningarinnar vísar til bókmennta: Handrit. Og í viðtali segir Leifur Ýmir að líta megi á leirplöturnar sem blaðsíður og að ganga inn á sýninguna sé eins og ganga inn í bók.

Áferðarmikið uppfyllingarefni

Tónninn í þessum verkum Leifs er svo sterkur að maður neyðist beinlínis til þess að segja upphátt það sem stendur á leirplötunum, til að heyra tóninn og fá tilfinningu fyrir áferðarmiklum orðunum. Erlendu ferðamennirnir hafa örugglega klórað sér í höfðinu, bæði yfir þessu íslenska textaflóði en ekki síður yfir tautinu og flissinu í mér þar sem ég sat í sýningasalnum og las af hverri leirplötunni á eftir annarri. En þrátt fyrir allt stöldruðu erlendu ferðamennirnir við, því sýningin er ekki síður sjónrænt falleg. Brúnar, þunnar leirplöturnar og fínlegar viðarhillurnar tóna fallega saman og það tekst að skapa einhvern léttleika yfir heildinni á sama tíma og hver og ein plata nýtur sín vel. Á sama hátt og hver og ein látlaus leirplata fær upphafningu, á sinni eigin vegghillu, öðlast hversdagsleg orðin og setningarbrotin vægi við að fá þetta rými.

 

Handrit er ein af þessum sýningum sem halda áfram að malla og krauma í höfðinu eftir að heim er komið. Maður verður meðvitaður um hvernig maður talar og stendur sjálfan sig að því að segja sömu frasana aftur og aftur, fer að veita tungumálinu og klisjunum í tungumálinu meiri eftirtekt. Allt í einu verður svo augljóst hvernig við notum setningar til þess að segja ekkert, hvernig við röðum upp orðunum á skrítinn hátt, notum frasa og orð til fylla upp í þagnir í samtölum og þvöðrum — eins og listamaðurinn orðar það. Þetta er það sem góðar sýningar gera, þær halda áfram að hafa áhrif eftir að heim er komið og opna fyrir nýrri sýn á hversdagslega hluti.

Sýningin Handrit eftir Leif Ými Eyjólfsson stendur til 27. janúar í D-sal Hafnarhússins á Listasafni Reykjavíkur.