Hallgrímur Helgason, rithöfundur og höfundur orðs ársins 2016 – „hrútskýring“, segir að orðið hafi í raun tvær merkingar því að það megi einnig ritað það „hr. Útskýring“. Ríkisútvarpið, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímir – félag stúdenta í íslenskum fræðum stóðu fyrir valinu á orði ársins 2016. Tilkynnt var um sigurvegarann í dag.
Hallgrímur segist hafa verið á Facebook og þá hafi kona verið að óska eftir þýðingu á enska orðinu „mansplaining“ sem merkir það þegar karlmenn útskýra eitthvað fyrir konum á yfirlætislegan og lítillækkandi hátt og gefi sér að þeir viti betur en þær. „Það var bara lýst eftir tillögum og þetta kom strax upp í hugann,“ segir Hallgrímur.
„Ég slengdi þessu bara fram. Ég notaði þetta minnst sjálfur en maður sá að þetta fór á flug strax. Svo var einhver snjall sem sá aukamerkingu í orðinu því það má rita þetta „hr. Útskýring“,“ segir Hallgrímur.
Athugasemd: Í upphaflegu færslunni kom fram að Hallgrímur Helgason hafi stungið upp á orðinu hrútskýringu sem þýðingu á hinu enska mansplaining árið 2012. Hið rétta er að það var árið 2011 og leiðréttist hér með.