Óminni er fyrirbrigði sem margir þekkja sem hafa drukkið of mikið áfengi. Yfirleitt er það bundið við stuttan tíma og á meðan áfengismagnið er sem hæst í blóðinu, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur, yfirlæknis á Vogi, sjúkrahúsi SÁÁ. Ýmsar aðrar ástæður geta skýrt óminni, svo sem streita og áföll.
Gunnar Bragi Sveinsson, einn þeirra þingmanna sem heyrðist í á upptökunum af barnum Klaustri, sagði í viðtali í þættinum 21 á Hringbraut í gær að hann myndi ekkert eftir því kvöldi né næsta eina og hálfa sólarhring þar á eftir.
Hvað gerist í líkamanum?
„Áfengi er slævandi efni og hefur slævandi áhrif á miðtaugakerfið, heilann og eins og allir þekkja brenglast ýmis konar skynfæri, tímaskynið og maður áttar sig ekki á því hvað tíminn líður. Sársaukaskynið er ekki rétt og það getur gerst líka að heilinn sjái ekki um að skrá minningar eins og hann ætti að gera ef að of mikið áfengi er í blóðinu,“ sagði Valgerður í viðtali í þættinum Samfélaginu á Rás 1 í dag. „Þá veit fólk ekkert af því á meðan á því stendur og ekkert hægt að sjá það á fólki þegar það er að tjá sig og tala og er með öðru fólki. En síðan daginn eftir kemur í ljós að það eru gloppur í minninu.“
Sjaldgæft að minnisleysi vari lengi
Óminnis verður helst vart á meðan áfengismagnið er sem mest í líkamanum. Ef fólk hefur tekið önnur slævandi efni með, til dæmis lyf, þá eykst hættan á óminni enn frekar, að sögn Valgerðar. Ef fólk er í mikilli neyslu getur það misst út minni í lengri tíma en það er frekar sjaldgæft. Þá segir Valgerður að fólk geti fengið óminni af öðrum ástæðum en drykkju, til dæmis vegna mikillar streitu, áfalls eða flogaveiki. Ýmislegt geti skýrt slíkt ástand.
Eru margir sem leita til ykkar sem muna ekki eftir sér í langan tíma? „Það eru margir sem hafa áfengissýki eða fíknisjúkdóm, hvort sem það er áfengi eða lyf, sem þekkja þessi einkenni að hafa upplifað þessi svokölluðu „black-out“ eða óminni en alls ekki allir. Þetta er ekki eitthvað sem þarf að vera til staðar til að greina vandann. En það eru margir sem hafa lent í því.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Valgerði í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.