„Hún er alveg skýr þessi skýrsla og niðurstaðan sýnir að þetta er ekki bara stórkostleg framúrkeyrsla heldur eru ekki bara reglur borgarinnar brotnar heldur ýmis lög, bæði ólöglegar greiðslur og sönnunargögnum eytt,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, um skýrslu um braggamálið.
„Þetta staðfestir ábyrgð fleiri en skrifstofustjórans sem tók á sig sök eins og var sagt í útvarpinu,“ segir Eyþór. „Það er ljóst að bæði borgarritari og borgarstjóri voru ekki að sinna skyldum sínum. Borgarstjóri var yfirmaður skrifstofustjórans. Það kemur líka fram í skýrslunni. Hann er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og á líka að sinna eftirliti. Það var ekki gert. Það er hafið yfir allan vafa. Nú er innri endurskoðun komin með þetta. Þetta er ekki pólitískt plagg. Þetta er bara staðreynd.“
Aðspurður um stöðu Dags B. Eggertssonar segir Eyþór: „Það er alveg ljóst af skýrslunni að hann ber ábyrgð. Nú er spurning hvernig hann ætlar að axla ábyrgð, hvort hann horfist í augu við samvisku sína eða kjósendur. Það er miður að þetta mál kemur upp eins og mörg önnur mál eftir kosningar. Borgarbúar vissu ekki af þessu máli og öðrum. Það hefði verið gott ef þetta hefði komið upp áður. Ábyrgðin er ljós og mér finnst mikilvægt að þeir sem bera ábyrgðina axli hana og sýni í verki að þeir meini eitthvað með því.
Eyþór segir að til að byrja með verði allir að fara yfir skýrsluna. Hún sé skýr og nú verði borgarstjóri að horfast í augu við hana með einhverjum öðrum hætti en að skipa starfshóp.
Viðtalið við Eyþór má sjá í spilaranum hér að ofan. Fyrst birtist frétt um málið og svo viðtal við Eyþór.