Það er óljóst hver veitir leyfi um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, segir Nichole Leigh Mosty, formaður Velferðarnefndar Alþingis. Hún vill banna arðgreiðslur úr einkafyrirtækjum í heilbrigðiskerfinu.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur sagt frekar skýrt á Alþingi að hann stefni ekki að auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Hann hefur til að mynda gefið skýrt til kynna að hann ætli ekki að veita Klíníkinni í Ármúla starfsleyfi. Hann hélt því raunar fram á Alþingi fyrir rúmum mánuði að það væri embættis Landlæknis að veita leyfi til rekstrar heilbrigðisþjónustu.
Landlæknir sagði í bréfi í vikunni að hann hafi ítrekað reynt að leiðrétta þennan misskilning en án árangurs. Þá þurfi ekki sérstakt leyfi ráðherra til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu, aðeins staðfestingu frá Landlækni. Heilbrigðisstofnanir geti svo fjármagnað rekstur sinn með gildandi samningi sjúkratrygginga Íslands og læknafélags Reykjavíkur. Í bréfi Landlæknis segir: Meðan svo er, er vandséð hvernig heilbrigðisyfirvöld geta haft stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur til heilbrigðismála og hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra vildi ekki veita viðtal vegna þessa máls í dag. Nicole Leigh Mosty, formaður Velferðarnefndar Alþingis og flokkssystir hans, segir stefnt að því að minnka hlut einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, sem sé nú um þrjátíu prósent. Hún tekur að sumu leyti undir gagnrýni Landlæknis og segir óskýrt hver veiti leyfi til rekstrar heilbrigðisþjónustu. Hún segir engan áhuga fyrir því hjá stjórnvöldum að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi, eins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra benti á í dag, og hún vill bregðast við þeirri þróun með því að takmarka arðgreiðslur.