Blaðamenn DV fóru fram á það við stjórnarformann félagsins, á starfsmannafundi í morgun, að hann bæði fráfarandi ritstjóra opinberlega afsökunar á framkomu nýrrar stjórnar. Óvíst er hvort tekst að koma DV út á morgun en mikil ólga og óvissa er meðal starfsmanna blaðsins.
Ný stjórn DV tók til starfa á föstudag eftir látlausar deilur síðan í júlí. Hún hittist í fyrsta skipti á sunnudag og eitt af fyrstu verkum hennar var að leysa Reyni Traustason, sem hefur verið ritstjóri blaðsins í sjö ár, frá störfum og ráða Hallgrím Thorsteinsson, dagskrárgerðarmann á RÚV, í hans stað.
Hallgrímur og Þorsteinn Guðnason, nýr stjórnarformaður, hittu blaðamenn DV klukkan níu í morgun þar sem starfsmenn blaðsins létu óánægju sína óspart í ljós.
Þeir gagnrýndu framkomu stjórnarinnar við Reyni harðlega og hvernig honum hefði verið vikið frá störfum. Þess var krafist að ritstjórinn, framkvæmdastjórinn og ritstjórnin í heild yrðu beðin opinberlega afsökunar á framkomu nýrrar stjórnar. Og að rannsókn, sem fara ætti fram á annars vegar faglegu starfi og hins vegar rekstri félagsins, yrði látin niður falla.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, aðstoðarritstjóri DV, sagði í samtali við fréttastofu að DV myndi að öllum líkindum ekki koma út á morgun - enginn blaðamaður myndi hefja störf fyrr en hann hefði fengið svör við spurningum ritstjórnarinnar. Ekki náðist í Þorstein Guðnason.