Frá því að heimilt varð að selja bjór hér á landi hafa landsmenn rennt niður röskum 346 milljónum lítra af bjór. Það samsvarar því að þeir hafi drukkið stóru laugina í Laugardal 249 sinnum. Á morgun eru 30 ár liðin fá því að bjórinn var leyfður.
Langar biðraðir
Það var mikið fjör fyrir 30 árum, miðvikudaginn 1. mars, þegar 74 ára bjórbanni var aflétt. Þeir sem höfðu beðið eftir bjórnum tók þessum tíðindum fagnandi og væntanlega fegnir að vera lausir við að teyga bjórlíki. Miðbær Reykjavíkur fylltist af fólki sem vildi kneyfa ölið. Biðraðir mynduðust fyrir utan þá tiltölulega fáu staði sem buðu upp á bjór. Að minnsta kosti voru þeir fáir miðað við í dag. Hér áðan heyrðum við í gestum á veitingastaðnum Gauki á Stöng á góðri stund. Svo mikið var fjörið að menn sáu ástæðu til að dansa uppi á borðum. Bjórþyrstir fóru líka í Ríkið og daginn eftir var upplýst að seldar hefðu verið 340 þúsund dósir. Reyndar voru uppgefnar tölur aðeins á reiki.
7 tegundir í boði
Bjórúrvalið í Ríkinu var fremur fábrotið. Boðið var upp á 7 tegundir: Sanitas Pilsner, Egils Gull, Budweiser, Löwenbräu, Tuborg, Kaiser og Sanitas Lager. Öldin er nokkuð önnur í dag því nú eru í boði um 500 bjórtegundir. Það fer reyndar eftir árstímum því tegundum fjölgar nokkuð um jól og páska. Morgunblaðið birti kort þar sem hægt var að glöggva sig á hvar væri hægt að kaupa mjöðinn, hvaða tegundir væru í boði og loks verðið.
Bjórdósin sem var af minni gerðinni kostaði frá 93 krónum upp í 110 krónur og kippan frá 560 upp í 660 krónur. Vínbúðirnar voru 17 talsins á landinu öllu og þar af 5 í Reykjavík. Nú eru þær 51 og að auki er í boði að kaupa á netinu.
Davíð braut ísinn
Um nokkuð langt skeið, eða frá 1965, hafði áhöfnum flugvéla og skipa verið heimilt að taka með sér bjór inn í landið. Davíð Scheving Thorsteinsson braut ísinn 1979 þegar hann sætti sig ekki við að mega ekki koma með bjór inn í landið og bar við jafnréttisreglunni. Árið eftir gátu allir ferðamenn sem kom til Íslands keypt bjór í fríhöfninni. Nokkrar tilraunir voru gerðar til að leggja fram frumvörp á Alþingi en þau frumvörp döguði uppi.
Bjórfrumvarpið
Í byrjun árs 1988 lagði meirihluti allsherjarnefndar Alþingis fram bjórfrumvarp sem fólst í því að grein í áfengislögum um bann á sölu bjórs var felld niður. Nefndin lagði fram frumvarpið í framhaldi af öðru bjórfrumvarpi sem Jón Magnússon, Geir H. Haarde og Guðrún Helgadóttir höfðu lagt fram um haustið. Ýmsar breytingartillögur voru lagðar fram sem voru felldar. Árni Gunnarsson Alþýðuflokki lagði til að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um bjórinn í ágúst 1988 og Steingrímur J. Sigfússon lagði til að einungis yrðu selt milliöl með styrkleika frá 3,25% upp í 4%. Frumvarpið var samþykkt í neðri deild Alþingis og menn lögðu við hlustir þegar greint var frá niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í efri deild Alþingis skömmu eftir miðnætti 10. maí í fréttum útvarpsins.
Verði að hella öli yfir þjóðina
Andstæðingar bjórsins höfðu áhyggjur af aukinni drykkju og vildu umfram allt efla forvarnarstarf. Og það var farið fram á nafnakall.
Þrátt fyrir að allar skýrslurnar sem við höfum fengið um áhrif sölu áfengs öls á Norðurlöndunum sýna að það erum gríðarlega aukna drykkju unglinga að ræða þá hafa háttvirtir alþingismenn ekki verið tilbúnir til þess að tryggja aukna fræðslu. Ég er móðir tveggja unglinga og segi þess vegna nei.
Sagði Margrét Frímannsdóttir Alþýðubandalagi. Og flokksbróðir hennar Svavar Gestsson var ekki sáttur. Hann nefndi ýmsar ástæður fyrir því að ekki ætti að heimila sölu á bjór.
Ég vil að þingið axli ábyrgð gagnvart unga fólkinu og famtíðinni. Af öllum þessum ástæðum og mörgum fleirum segi ég nei og bið menn enn að skoða hug sinn áður en þeir taka á sig þá ábyrgð sem fylgir því að hella áfengu öli yfir íslensku þjóðina
Frumvarpið var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 8.
249 sundlaugar
En hvernig hefur bjórdrykkjan þróast á Íslandi? Það var tekið nokkuð hressilega á því á fyrsta ári. Þó að liðnir væru tveir mánuðir af árinu 1989 drukkum við talsvert meira af bjór það ár en árið á eftir. Fórum í nærri 7 milljónir lítra á bjórárinu en árið eftir mældist bjórdrykkjan tæpar 6,5 milljónir lítra. Samkvæmt tölum frá ÁTVR hafa vínbúðirnar selt samtals 346 milljónir 397 bjórlítra þessi 30 ár eða fram að síðustu áramótum. Mikið eða lítið? Þessar rúmu 346 milljónir lítra svara til þess að hafa drukkið stóru laugina í sundlaugunum í Laugardal 249 sinnum. Gera má ráð fyrir að svipað magn hafi á endanum skilað sér til sjávar.
67 lítrar á mann
Bjórdrykkjan hefur aukist jafnt og þétt þessi 30 ár, var komin í röskar 17 milljónir lítra í fyrra. Landsmönnum hefur líka fjölgað. Við vorum 252 þúsund 1990 en í fyrra var fjöldi landsmanna um 348 þúsund. Svo má ekki gleyma því að ferðamönnum hefur fjölgað talsvert og viðbúið er að þeir fái sér bjór af og til.
Miðað við mannfjöldann 1990, fyrsta heila bjórárið, drukkum við um 25 lítra á mann af bjór. Í fyrra var þessi tala komin í um 49 lítra. Áfengisaldur er 20 ár. Ef við gleymum unglingadrykkjunni og mátum bjórdrykkjuna við þá sem hafa náð áfengisaldri nam hún 1990 um 39 lítrum á mann og í fyrra var hún komin í 67 lítra.
Klippt á bjórborðann
Og það var Magnús L. Sveinsson forseti borgarstórnar Reykjavíkur sem formlega rauf bjórbannið fyrir 20 árum með því að klippa á borða í á veitingahúsi.
Mér er það mikil ánægja að klippa nú á 76 ára gamalt ölbann á Íslandi.