750 lítrar af óhreinsuðu skólpi flæða á hverri sekúndu út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík og hafa gert í 10 sólahringa. Skólpdælustöðin þar er biluð. Viðgerð hefur tafist og óvíst er hvenær henni lýkur. Afar bagalegt, segir umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Bilun í neyðarlúgu varð til þess að skólp úr stórum hluta húsa á höfuðborgarsvæðinu fæðir nú óhreinsað í fjöruna. Dælur sem eru í stöðinni eru ekki hafðar í gangi á meðan á viðgerðinni stendur. Þegar allt er með felldu er skólpinu dælt í skólphreinsistöð við Ánanaust en þaðan er því dælt hreinsuðu fjóra kílómetra út í hafið á 30 metra dýpi. Skólpið kemur úr stórum hluta Breiðholts, Árbæ, Norðlingaholti, Garðabæ og Kópavogi.
Hólmfríður Sigurðardóttir er umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur: „Okkar mannskapur hefur verið að vinna við erfið skilyrði að gera við þetta. Það hefur gengið hægar en við bjuggumst við en við erum að vonast til að þessu fari að ljúka. Þannig að þetta er bara alls ekki gott ástand. Af tvennu illu þá töldum við það skárri kost að hafa lúguna opna þannig að það væri ekki möguleiki á því að skólpið myndi fara upp í kerfið og flæða inn til fólks. Því það væri möguleiki.“
Þetta er lengsta og alvarlegasta bilun sem orðið hefur á skólphreinsikerfinu frá upphafi.
„Sem foreldri þá myndi ég ekki fara með börnin mín í fjöru þar sem að eru saurgerlar. Þessar hreinsi- og dælustöðvar eru ein mesta umhverfisbót sem gerð hefur verið á seinni árum á höfuðborgarsvæðinu.“
Sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók í júní gáfu ekki tilefni til að gefa út aðvörun en til stendur að taka annað sýni á morgun og meta stöðuna upp á nýtt.
Svava Steinarsdóttir er heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur: „Það sem við höfum helst áhyggjur af eru saurgerlar sem koma úr skólpinu sem geta verið sjúkdómsvaldandi. Gildin úr þeim sýnum sem voru tekin í júní voru undir þeim mörkum sem eru sett við baðstaði í náttúrunni þannig að það var ekki ástæða til að hafa áhyggjur af heilsu fólks við þær aðstæður sem að voru þá. Ef að mikill úrgangur er farinn að setjast uppi í fjöru þá teljum við ástæðu til að hreinsa hana.“