Fyrir fjórum mánuðum flutti Valdís Eva Hjaltadóttir inn í lítið heilsárshús á hjólum. Hún vinnur að því að koma sambærilegum húsum á markað hér á landi. Bergþóra Pálsdóttir hefur búið í gömlum húsbíl í meira en fjögur ár og kann því ágætlega. Báðar dreymir þær um varanlegan stað fyrir heimili sitt. Valdís situr í stjórn Hagsmunasamtaka áhugafólks um smáheimili og bindur vonir við að smáhýsagarðar verði leyfðir á höfuðborgarsvæðinu, í það minnsta tímabundið.
Á Íslandi eru stórir hópar fólks fastir; á leigumarkaði, í foreldrahúsum eða í óleyfishúsnæði. Flestir vilja kaupa sér húsnæði en það er ekki á allra færi. Margir eru eflaust orðnir leiðir á að verja stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu og suma óar við að skuldsetja sig og greiða af láni áratugum saman. Er eitthvað annað í boði? Spegillinn heldur áfram umfjöllun sinni um fólk sem farið hefur óhefðbundnar leiðir til að koma þaki yfir höfuðið. Í gær var fjallað um fjölskyldu sem býr í skútu við Hafnarfjarðarhöfn.
„Ég komst að því að mig langaði að vera á hjólum“
Heimili Valdísar stendur á atvinnuhúsnæðislóð á höfuðborgarsvæðinu, þar hefur hún fengið leyfi til að vera og kemst í vatn og rafmagn. „Ég flutti aftur til Íslands sumarið 2016 eftir að hafa búið í útlöndum í fimmtán ár og komst einhvern veginn að því sjálf að mig langaði að vera á hjólum. Þegar ég fór að þróa þetta hús voru íslenskir vinir mínir að segja mér að ég yrði að koma með þetta til Íslands, það vantaði svona hér. Þetta einhvern veginn vatt upp á sig út af stöðunni á markaðnum í dag.“
Eldhús, bað og svefnloft
Valdís hyggst láta framleiða svipuð hús og hennar eigið og selja þau hér. Húsið hennar er tveir og hálfur meter á breidd og sex metra langt. Komið er inn í eldhúskrók, svo tekur við eldhús og innst er lítið baðherbergi með salerni og sturtu. Frá eldhúsinu liggja tröppur upp á lágt svefnloft og undir tröppunum eru skápar.
Sumir vilja meina að smáhús séu tískubylgja en Valdís sér ekki fyrir sér að hún gefist upp á þessum lífsstíl í bráð. „Ég hef nefnilega ekki saknað neins í þessa fjóra mánuði sem ég hef búið hérna, það er ótrúlegt hversu mikið þessir þrettán fermetrar rúma.“
Í Bretlandi og Bandaríkjunum eru þessi heimili sem ýmist eru á hjólum eða sökkli kölluð Tiny homes. Þau hafa átt vinsældum að fagna, svo sem hjá fólki sem aðhyllist minimalískan lífstíl, vill vera hreyfanlegt eða kærir sig ekki um að skuldsetja sig mikið.
Valdís segir að tveir hópar hafi einkum leitað til hennar og spurt út í húsin. Annars vegar fólk sem sé hrifið af hugmyndafræðinni, hins vegar fólk sem sé komið með nóg af óöryggi og tíðum flutningum á leigumarkaði.
Dýrir fermetrar en komin í sitt eigið
Er ódýrt að kaupa smáhýsi? Valdís greiddi sjö milljónir fyrir sitt, komið til landsins. „Þetta eru bara þrettán fermetrar, þá er þetta hálf milljón á fermeter. Þetta er ekki ódýrt þannig en á sjö milljónir er ég að fá mitt eigið, ég þarf ekki að deila því, ég er örugg um hvar ég get búið, ég þarf ekki að pakka niður, get bara flutt mig. Ef maður tekur lán fyrir sjö milljónum þarf maður að eiga eina og hálfa og þá kostar það hundrað þúsund krónur á mánuði. Þetta fer allt eftir því hvort þú ert svo með einhveja leigu á jörðinni og svoleiðis.“
Stökkpallur yfir í stærra
Hún veltir því fyrir sér hvort fólk geti notað húsin sem stökkpall, búið í þeim í tvö eða þrjú ár og safnað fyrir stærra húsnæði. „Síðan eru einmitt þeir sem vilja búa á 13 fermetrum. Þetta ýtir líka undir minni neyslu, ég þarf að hugsa mig um hvað ég kaupi í búðinni. Sú týpa getur kannski hugsað sér að búa svona til lengri tíma en ég held samt að það sé rosalega stór hópur sem getur séð þetta fyrir sér í skemmri tíma.“
Hjólhýsi og undanþegið kröfum byggingareglugerðar
Húsið líkist kannski ekki beint dæmigerðu hjólhýsi en er skráð sem hjólhýsi og uppfyllir að sögn Valdísar alla staðla. Það er hægt að fá lán fyrir því og það er skoðunarskylt. Húsið flokkast sem farartæki en ekki hús og heyrir því undir Samgöngustofu ekki Mannvirkjastofnun. Það er kannski eins gott því heimili Valdísar myndi ekki standast ákvæði byggingareglugerðarinnar. Það er of lítið og uppfyllir ekki staðla um algilda hönnun, hentar til dæmis ekki fólki sem notar hjólastól. „Mig langaði einmitt að sniðganga byggingareglugerðina því ég hef heyrt að það geti verið erfitt að breyta deiliskipulagi, þetta taki tíma og það sé mjög mismunandi hvað byggingafulltrúar vilji hafa í hverju bæjarfélagi.“
Erfitt að finna samastað
Helsta áskorunin við að búa í hjólhýsi er að mati Valdísar að finna lóð þar sem má hafa það til lengri tíma. Stað þar sem er aðgangur að vatni og rafmagni. Byggingareglugerð gerir ráð fyrir því að fólk sem hyggst láta lausafjármuni, svo sem hjólhýsi, standa lengur en tvo mánuði á sama stað yfir vetrarmánuðina sæki um stöðuleyfi. Það þarf að staðsetja hjólhýsin þannig að ekki stafi hætta af þeim og ákvæði um hollustuhætti og mengunarvarnir þurfa að vera uppfyllt. Leyfið gildir í allt að 12 mánuði og sveitarstjórnir mega taka gjald fyrir það, yfirleitt um 70 þúsund krónur að sögn Valdísar. Hún telur að það sé erfitt að fá slíkt leyfi í Reykjavík sökum plássleysis.
„Okkur verður hent út 15. apríl“
Bergþóra Pálsdóttir býr í húsbíl á tjaldsvæðinu í Laugardalnum. Borgar 43 þúsund á mánuði fyrir stæðið og um 20 þúsund til viðbótar fyrir gas þegar það er kaldast. Bergþóra segist vera á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá Akureyrarbæ, það gangi hægt. Húsbíllinn, sem er 1986 módel, hefur verið heimili hennar í meira en fjögur ár. Hún kann því ágætlega að búa í bílnum en myndi vilja fá fast stæði fyrir hann. „Borgaryfirvöldum ber skylda til þess að redda okkur varanlegu, við þurfum að fara héðan fimmtánda apríl en hvert við eigum að fara veit ég ekki það er ekki búið að opna nein tjaldsvæði.“
Síðastliðin sumur hefur hún verið á flandri, meðal annars ferðast um Vestfirði. „Það er allt í lagi að vissu leyti en það er voða gott að fá að vera kyrr með bílinn.“
Skömm
Hún segir ekki gert ráð fyrir því að fólk búi í húsbílum og hjólhýsum. „Nei, þetta virðist vera skömm en það er árið 2019 og alls staðar í heiminum eru fastlegustæði, rosalega flott, ég hef skoðað þau mikið þegar ég hef farið út. Þetta er alls staðar nema á Íslandi, ég veit ekki hvað er að hér.“
„Þurfa ekki að naga neglurnar síðustu daga mánaðarins“
Bergþóra er öryrki og segir það að búa í húsbílnum hafa breytt heilmiklu fyrir sig. „Ég á pening út mánuðinn sem maður hefur ekki átt lengi.“
Það eru þó nokkrir til viðbótar sem búa á tjaldsvæðinu í húsbílum, hjólhýsum eða rútum. „Sumir kjósa bara þennan lífsstíl, þetta er ódýrara fyrir fólk, það getur þá lifað af laununum sínum, þarf ekki að naga neglurnar síðustu daga mánaðarins“.
Loppin í eldhúsinu
Henni finnst samfélagið á tjaldsvæðinu samheldið og gott en segir eldhúsaðstöðu og snyrtingu í timburhúsum á tjaldsvæðinu ekki upp á marga fiska. „Það er ískalt þarna, maður er loppinn við að fara og elda þarna. Maður verður að elda bara niðri í bíl hjá sér og ekki getur maður farið í sturtu eins og kuldinn er í dag, maður frýs bara.“
Hagsmunasamtök vilja lóðir
Nokkur áhugi er á smáhýsum hér á landi ef marka má fjölda meðlima í Facebook-hópnum TIny Homes á Íslandi, þeir eru um 4700. Valdís er meðstjórnandi í HÁS, Hagsmunasamtökum áhugafólks um smáheimili sem stofnuð voru árið 2016, félagafjöldi er á reiki þar sem listinn týndist. Tilgangur samtakanna er að auka frelsi fólks til að velja sér fjölbreyttari búsetuform með áherslu á smáheimili sem raunhæfan valkost. Á vefsíðu samtakanna segir að meðal þess sem þau hyggist gera til að ná markmiðum sínum sé að vinna með sveitarfélögum að því að útvega lóðir fyrir smáheimili, skrifa umsagnir um deiliskipulag sveitarfélaga, beita sér fyrir lagabreytingum sem auðvelda hönnun og byggingu smáheimila og miðla þekkingu um hugmyndafræði þeirra.
Samtökin vilja koma upp smáhýsahverfum eða götum og Valdísi er sérstaklega umhugað um að finna staði fyrir hús á hjólum. „Það væri rosalega gaman að sjá svona heilsárs smáhýsagarða. Þeir geta alveg verið tímabundnir, fimm eða tíu ár, ef það er eitthvað svæði sem er ekki komið í deiliskipulagið, að nýta það.“
Hún sér fyrir sér að þetta gæti verið garður með húsum frá hennar fyrirtæki, sem ýmist væru seld eða leigð, eða alls konar húsum frá ýmsum fyrirtækjum. Í einni af tillögum átakshóps stjórnvalda til að bæta ástandið á húsnæðismarkaði er talað um að heimila íbúðarhúsnæði til skammtímanota á athafnasvæðum. Valdís horfir til hennar. En gæti hver sem er búið í slíkum garði? Er ekki hætt við að fólk hírðist þar í köldum, lélegum bílum. Er nóg að hjólhýsin fái skoðun eða þarf frekari reglur? „Ef það kæmi svona garður þyrfti hann kannski einmitt að vera undir einhverju eftirliti en geta samt boðið upp á lausnir fyrir fleiri. Þessir Tiny house garðar hafa verið samþykktir í mörgum ríkjum og þá eru bara gerðar einhverjar kröfur til útlits og gerðar til þess að fá að vera í garðinum.“
Stjórnarmenn vinna að ólíkum lausnum
Á heimasíðu HÁS segir að samtökin taki ekki afstöðu með ákveðnum útfærslum eða hönnunarlausnum og hvetji ekki til viðskipta við fyrirtæki í eigu félagsmanna. Þetta er ekki af ástæðulausu, Valdís er ekki sú eina sem vinnur að lausnum. Formaðurinn, Ríkarður Leó Guðmundsson, hyggst koma vistvænum gróðurhúsum sem ætluð eru til búsetu eða bæði matvælaframleiðslu og búsetu á markað. Hann vinnur að lausninni með alþjóðlegu teymi. Teymið fékk að sögn Ríkarðs lóð úthlutað á Kjalarnesi fyrir tilraunaverkefni en gat ekki notað hana þar sem byggingin sem þeir ætluðu að koma þar fyrir var hærri en deiliskipulag gerði ráð fyrir.
Legið í dvala
Samtökin hafa ekki verið mjög virk undanfarið en Ríkarður segir lagt upp með að halda baráttunni áfram af krafti eftir aðalfund sem verður haldinn í lok febrúar. Það séu teikn á lofti um að tíðarandinn sé að breytast, það hafi byggst upp mikill samfélagslegur þrýstingur og fólk vilji sjá aðgerðir.
Segir undirtektir sveitarfélaga hafa verið dræmar
Enn sem komið er hafa fáir farið þá leið að byggja sér smáheimili. Ríkarður segir lóðaskort helstu hindrunina. Þá falli ekki öll smáheimili að ákvæðum byggingareglugerðar. Að hans mati þyrfti að slaka á reglugerðinni eða veita undanþágur til að gera nýsköpun mögulega á þessu sviði. Hann telur sveitarfélög þurfa að spýta í lófana og taka smáheimilahverfi inn í aðalskipulag til að gera búsetu á smáheimilum að raunhæfum möguleika.
Ríkarður segir að í lok árs 2018 hafi samtökin sent nokkrum sveitarfélögum almenna fyrirspurn, spurt hvort áhugi væri fyrir því að skipuleggja hverfi fyrir smáheimili. Undirtektirnar hafi verið frekar dræmar. Hafnarfjörður hafi þó sýnt áhuga, boðið fulltrúa samtakanna á fund. Spegillinn fékk þær upplýsingar frá bænum, að í undirbúningi sé nýtt skipulag í Hamraneshverfi og þar liggi tækifæri til að þróa svæði fyrir smáheimilabyggð á ákveðnum reitum, fara nýjar leiðir í húsnæðisgerð. Ríkarður segir Reykjanesbær líka hafa brugðist vel við, sagt koma til greina að horfa til lóða undir smáheimili við endurskoðun aðalskipulags.
Þykja of landfrek
Í Kópavogi hefur ekki verið skipulagt svæði fyrir smáhýsi og ekki sett fram sérstök stefna um þau. Í Garðabæ hafa verið byggðar 36 öríbúðir, 25 - 50 fermetrar í fjölbýli í Urriðaholti. Bæjarstjórinn, Gunnar Einarsson segir að það gæti verið pláss fyrir slíkt hverfi. Þá er hann áhugasamur um deiliíbúðir, þær geti verið ákveðið andsvar við bæði fjárhagskröggum og einmanaleika í nútímasamfélagi. Fólk er þá með séríbúð en deilir setustofu og fleiru. Í Reykjavík hefur ekki verið horft til þess að koma upp smáhýsahverfum, þau þykja of landfrek og ekki í samræmi við stefnu um þéttingu byggðar. Það er aftur á móti horft til smáheimila sem velferðarúrræðis. Nú eru nokkrir gámar fyrir útigangsfólk úti á Granda og það stendur til að bæta 25 við víða um borgina.
Leiðrétting: Í pistlinum segir að teymið sem Ríkarður vinnur með hafi fengið styrk frá Evrópusambandinu. Hið rétta er að tilraunaverkefni, sem byggir á sömu tækni og Ríkarður vinnur með, fékk styrk frá ESB.