Formaður Eflingar segir óhætt að segja að enn beri mikið í milli í kjaraviðræðum. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar segja línur farnar að skýrast og að fljótlega komi í ljós hvort hörð átök brjótist út á vinnumarkaði.
Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur hafa öll vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. Forystumenn félaganna fjögurra funduðu í morgun með forystu Samtaka atvinnulífsins og Ríkissáttasemjara. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði á mánudag að ef ekki yrði einhver árangur í viðræðunum væri líklegt að þeim yrði slitið. Til þess kemur þó ekki - allavega ekki í bili.
„Við getum ekki farið efnislega út í nákvæmar tölur eða slíkt en línur eru farnar að skýrast gagnvart okkar viðsemjendum þannig að við getum allavega farið í okkar samninganefnd og okkar bakland og rætt þá stöðu sem er komin upp,“ segir Ragnar Þór. Á næsta samningafundi, sem verður á mánudaginn, verði svo væntanlega hægt að taka efnislega afstöðu til þess sem kom fram á fundinum í dag.
„Við ræddum ýmis mál á þessum fundi, fórum vítt og breitt yfir sviðið, meðal annars ávörpuðum við kostnaðarmat kröfugerðanna. Og eins reyndum við að nálgast einhvers konar hugmyndir um svigrúm atvinnulífsins til launahækkana,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Ber ennþá mikið í milli?
„Vinnan er í gangi. Það er það sem ég get sagt þér á þessu stigi. En við erum ennþá að hittast og það er góðs viti,“ segir Halldór Benjamín.
Nokkrir dagar
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, tekur undir með Ragnari um að línur séu farnar að skýrast. „Nú vitum við hvert svigrúm atvinnurekenda er. Við höfum ekki fengið að heyra það áður. Og við vitum það núna enn þá betur að þeir halda sig fast við þessar breytingar á vinnutímum og öðru slíku sem við höfum alfarið hafnað. Og afstaða okkar hefur ekkert breyst í þeim efnum,“ segir Vilhjálmur. „En ég held að þessir hlutir muni skýrast mjög fljótlega, hvort hér stefni í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði eða hvort okkur takist að forða því. Og ég vona að okkur takist það.“
„Ég mun funda með minni samninganefnd, samninganefnd Eflingar, annað kvöld og ræða málin þar. Svo sjáum við hvað gerist. Við fundum aftur hér á mánudaginn þannig að við höfum núna nokkra daga til þess að velta stöðunni fyrir okkur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Ber enn mikið í milli?
„Já ég held að það sé óhætt að segja það,“ segir Sólveig Anna.