Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna sendi frá sér harðorða ályktun í morgun og segist harma orð Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri grænna. Ögmundur sagði í Vikulokunum um helgina að konur í stjórnmálum væru að nýta sér neikvætt umtal til að upphefja sig. Framkvæmdastjórnin segir Ögmund tala eins og verstu málpípu feðraveldisins. Ummælin séu þvert á stefnu Vinstri grænna og nauðsynlegt að forysta flokksins bregðist við.
Ögmundur var gestur Vikulokanna á Rás 1 á laugardaginn ásamt Karli Garðarsyni, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Björt Ólafsdóttur. Ögmundur sagði konur í stjórnmálum nýta sér neikvætt umtal til eigin upphafningar og það vakti háværar umræður.
UVG segir nauðsynlegt að forysta flokksins geri almenningi ljóst að ummælin séu þvert á stefnu flokksins og reyni ekki að þegja þau af sér. Framkvæmdastjórn UVG krefst þess að Ögmundur biðji konur í stjórnmálum og Vinstri hreyfinguna grænt frambið afsökunar á ummælum sínum.
Hanna Birna hóf þessa umræðu og sagði að henni fyndist ganga of hægt að breyta stjórnmálunum. Þau væru gamaldags og kölluðu á endalaus átök. Þá mæti konur öðrum veruleika en karlar. Viðhorfið til kvenna sé annað en til karla, kona sem standi fast á sannfæringu sinni sé kölluð frekja. Hún til að mynda oft hafa verið kölluð t.d. ísdrottningin eða járnfrúin.
Björt tók undir þetta og sagði mikla karlamenningu ríkja í nefndum Alþingis og þar væru meiri kröfur gerðar til kvenna að sanna sig en karla.
Ögmundur sagðist hafa heyrt þessar ræður oft. Þær lýsi upplifun þeirra en hans upplifun sé allt önnur. Hann sagðist ekki efast um að hún væri sönn en sagðist stundum hafa það á tilfinningunni að konur nýttu sér svona tal sjálfum sér til framdráttar. „Mér finnst konur oft, þetta er svona svolítið klisjutal um það að konur hugsi öðruvísi en karlar og eitthvað svoleiðis, en ég hef ekki upplifað þetta svona. Mér finnst konur jafnt sem karlar vera mismunandi einstaklingar sem að ræða hlutina á mismunandi hátt saman. Sumir karlar eru frekir og yfirgangssamir og aðrir eru það ekki, og það nákvæmlega sama gildir um konur.“
Hanna Birna sagði þetta ómaklegt og makalaust af þingmanni Vinstri grænna sem kenni sig við jafnrétti. „Hvernig skyldi standa á því að íslenskar konur sem fara inn á þing sitja nákvæmlega helmingi skemur en íslenskir karlar? Er eitthvað í konunum, er einhver að þeim? Eða gæti það verið að umhverfið hentaði þeim verr? Konan sem er með lengstu þingreynslu á Íslandi og er að fara út af þingi er fertug. Hún er fertug! Og það er staðreynd, Ögmundur, að karlar sitja helmingi lengur. Að reyna að halda því fram að þetta sé eitthvað sem konur nota, nei, þetta er staðreynd sem við upplifum á hverjum einasta degi. Við eigum sem jafnréttissamfélag að hafa hugrekki til að viðurkenna það, vinna með það og tala um það en ekki tala eins og það sé einhver tilbúin upplifun,“ sagði Hanna Birna.