Og hvað svo?

15.04.2017 - 12:55
Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir fjallar um óvissuna. Það sem er væntanlegt. Það sem er yfirvofandi. Það sem gerist. Eða mun ekki gerast.

Eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur:

Það gleður mig að geta nýtt dýrmætar mínútur í útvarpi allra landsmanna til að fjalla um borgaralaun. Því þótt hugmyndin að þeim hafi verið á sveimi í fimm hundruð ár, eða frá því að enski heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas Moore skrifaði bók sína Útópíu, er það fyrst núna sem hún er að ná fótfestu. Það er tímabært að við ræðum af alvöru um borgaralaun. Tími þeirra er kominn.

Fyrir þá sem ekki vita eru borgaralaun skilyrðislaus grunnframfærsla sem meðfæddur réttur. Hugmyndin er sú að hvert og eitt okkar eigi rétt á mánaðarlegri upphæð sem dugar fyrir nauðsynjum. Með öðrum orðum að fólk fái borgað fyrir það eitt að vera til. Og allt sem það aflar með launaðri vinnu leggst ofan á þessa upphæð.

Þetta hljómar líklega furðulega í eyrum þeirra sem heyra af þessu í fyrsta sinn. Okkur þykir svo sjálfsagt að fólk verji stærstum hluta vökutímans í að vinna til að geta framfleytt sér. Að vinna sé ekki val heldur nauðung. Að það að geta valið hvað maður tekur sér fyrir hendur sé munaður sem aðeins fáir séu aðnjótandi. 

En vélar og tæki eru smám saman að taka yfir þau verkefni sem við köllum láglaunavinnu. Og æ fleiri vakna til vitundar um að upphæðin í launaumslaginu endurspeglar ekki verðmæti framlags okkar til samfélagsins.

Þetta er spurning um að viðurkenna að jörðin er fyrir alla – að allir eigi rétt á arði af auðlindum hennar. Auðlindir þjóðarinnar tilheyra þjóðinni. Um leið er hugmyndin ekki einu sinni neitt sérlega róttæk. Með framkvæmd hennar er ætlunin að slá tvær flugur í einu höggi: útrýma fátækt og einfalda félagslega kerfið. Ekki að umbylta samfélagsgerðinni.

Milljarðamæringarnir myndu alveg halda velli og sem fyrr búa við allt önnur kjör en fólk sem á naumlega fyrir nauðsynjum. Enn yrði við lýði gapandi misskipting, sé okkur annt um að viðhalda henni.

Ef þetta er bylting er hún fyrst og fremst andleg. Bylting hugarfarsins. Við getum hætt að skilgreina okkur út frá starfsheitinu. Og verðum tengdari okkur sjálfum af því að við getum varið mestum tíma okkar í það sem skiptir okkur mestu máli.

Þetta er raunverulega hugmynd sem þarf ekkert að heita frekar til vinstri eða til hægri. Þetta er er hugmynd sem allir flokkar ættu að hafa á stefnuskránni. Hún er eðlileg viðbrögð við vélvæðingu og sjálfsagt að hún kvikni og dreifi sér í samfélagi líkt og okkar, sem getur svo auðveldlega sagt skilið við fátækt og vinnuþrælkun.

Helstu mótbárurnar sem heyrast þegar borgaralaun eru til umtals eru annars vegar að þetta sé ekki hægt vegna þess að það sé svo dýrt og hins vegar þetta gangi ekki upp vegna þess að fólk myndi  upp til hópa hætta að vinna og hjól samfélagsins stöðvast.

Ef við byrjum á þeirri fyrri: að þetta sé ekki hægt vegna þess að það sé svo dýrt er svarið einfaldlega Jú: Það er víst hægt. Í fyrsta lagi myndu borgaralaunin leysa af hólmi ýmis önnur útgjöld á borð við atvinnuleysisbætur, ellilífeyri og öryrkjalífeyri, beingreiðslur til bænda, listamannalaun, barnabætur og vaxtabætur. Í öðru lagi er gríðarlegur sparnaður fólginn í því að einfalda félagslega kerfið svona mikið. Allir þessir útreikningar og allt þetta eftirlit er dýrt og viðamikið batterí. Í þriðja lagi er afkomuótti fólks og það að eiga ekki völ á að stíga út úr hamstrahjóli atvinnulífsins afar streituvaldandi, en eins og við vitum er streita helsta undirliggjandi ástæða flestra sjúkdóma. Með því að minnka álagið á okkur almenning – með því að losa okkur undan þeirri ógn að geta hvenær sem er hrasað í gildru fátæktar og niðurlægingar – spörum við okkur ómælt peningaaustur í heilbrigðiskerfið. Í fjórða lagi væri hægt að minnka auðmannadekrið örlítið, það væri nóg að minnka það ógnar–pínulítið til að geta fjármagnað borgarlaun – burtséð frá öllu öðru.

Hin mótbáran: að fólk muni upp til hópa hætta að vinna og hjól samfélagsins stöðvast er eðlileg. Mannkynið hefur ekkert of háar hugmyndir um sjálft sig. Við höldum að við séum að megninu til löt og gráðug. En er þetta endilega rétt? Það held ég ekki. Ég trúi á göfgi mannssálarinnar. Ég trúi á þörf okkar til að hafa eitthvað fyrir stafni og meðfædda löngun til að verða að gagni. Og raunar hafa allar tilraunir þar sem heilu þorpin og byggðirnar hafa verið sett á borgaralaun – bæði í þróðuðum og vanþróuðum ríkjum – sýnt fram á það sama. Fólk hættir ekki að vinna. Flest ver það jafn mörgum klukkustundum á viku í launavinnu og það gerði áður. Í einstaka tilvikum minnkar það við sig vinnu, eða notar nýfengið frelsi til að vinna að einhverju öðru, einhverju sem það brennur fyrir og skilar ekki endilega arði strax en byggist hægt og rólega upp.

Þau sem lögðu niður launavinnu voru helst mæður ungra barna sem kusu heldur að verja tíma sínum með börnunum (eins og það sé ekki líka heilmikil vinna) og unglingar sem notuðu tækifærið og fóru aftur í skóla.

Fólk býr ekki við raunverulegt frelsi nema það sé laust undan þeirri nauðung að þurfa að vinna til að geta framfleytt sér. Það mun ekki skapast upplausnarástand þótt fólki sé frjálst að ákveða sjálft hversu mikið það vill vinna fyrir auðvaldið. Eða af hversu miklum þunga það vill leggjast á sveif atvinnulífsins. Fólk hefur metnað og vill láta gott af sér leiða. Og þau okkar sem þrá að gera ekki neitt eru líklega útkeyrð og þurfa næði til að byggja sig upp að nýju án þess að svelta og missa ofan af sér þakið.  

Til þess að auðvelda okkur að sjá fyrir okkur þessa nýstárlegu tilhögun vil ég leggja fram tvær dæmisögur:

Ég er hjúkrunarfræðingur á krabbameinsdeild. Ég lagði ekki á mig langt háskólanám til þess að komast í örugga launavinnu heldur vegna þess að ég hef áhuga á starfinu. Á hverjum degi finn ég að ég er hluti af heild sem styður, huggar, líknar og læknar fólk sem þarf á stuðningi að halda. Framlag mitt er dýrmætt og nauðsynlegt.

En ég er orðin fimmtíu og sjö ára. Ég á tvö uppkomin börn og þrjú barnabörn. Vaktirnar á spítalanum eru langar og ég vinn talsvert fleiri klukkustundir á viku en ég í raun þoli. Auk þess tek ég það nærri mér þegar sjúklingar þjást eða deyja og við sem vinnum á deildinni fáum enga handleiðslu eða ókeypis sálfræðitíma til að vinna á þeirri lúmsku, uppsöfnuðu streitu sem fylgir þessum hluta af starfinu.

Nú orðið á ég erfitt með að fara á fætur á morgnana og þegar ég er í vinnunni hugsa ég nær stöðugt um það hvænær ég losni og komist heim að hvíla mig. Ég elska barnabörnin meira en allt en hef ekki mikið úthald í samveru með þeim.

Ef ekki væri fyrir borgaralaunin – grunnframfærsluna – myndi ég neyðast til að halda þetta út þar til ég missti endanlega heilsuna eða kæmist á aldur.

Þótt það sé ekki auðveld ákvörðun tek ég mér árs launalaust leyfi frá störfum. Að ári liðnu finn ég að ég er ekki tilbúin að snúa aftur til vinnu. Við hjónin erum enn að borga af húsinu og eftir að ég hætti að vinna höfum við haft lítið milli handanna, en það venst. Ég fer á núvitundarnámskeið og í skóla að læra svæðanudd. Að þessum tíma liðnum er ég breytt manneskja. Ég hef orku, ég hef áhuga á lífinu í kringum mig, ég sakna starfsins og samstarfsfólksins. Ég byrja aftur á krabbameinsdeildinni – í sextíu prósent starfi. Meðfram hef ég tíma til að taka á móti fólki í nudd gegn vægu gjaldi, en ég er með bekk heima. Ég held áfram að vinna þar til ég er 85 ára vegna þess að ég er heil heilsu og mig langar ekki að hætta.  

Ég er tuttugu og níu ára og vinn á bar í miðbænum. Ég er með BA í mannfræði og lét þar staðar numið, enda fór ég ekki í Háskóla Íslands til að ná mér í gráðu heldur til að skilja heiminn betur og kannski til að standa undir væntingum foreldra minna. Ég sem ljóð og spila á gítar og frem stundum þetta tvennt á örlitlu sviði úti í horni á barnum þar sem ég vinn.  Kærastan mín er klínískur sálfræðingur og vinnur á Reykjalundi. Við eignumst son, hún tekur sér sex mánaða barnsburðarleyfi en eftir það er það ég sem er heima.

Sonur okkar byrjar á leikskóla. Ég gerist sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn og hjálpa innflytjendum að aðlagast samfélaginu hérna. Við ættleiðum litla stúlku sem að öðrum kosti hefði velkst um í kerfinu. Þegar bæði börnin eru komin á unglingsaldur býðst mér launað starf hjá Rauða krossinum og ég læt slag standa. Reynsla mín sem sjálfboðaliði kemur að góðum notum í starfinu.

Sextugur veikist ég af þunglyndi og kvíða, sem hefur alltaf blundað í mér, en aldrei áður þannig að ég sé ófær um nokkurn skapaðan hlut. Ég segi upp starfinu en án þess að þurfa að betla framfærslu af kerfinu og stöðugt að sanna að ég sé nógu veikur til að fá ölmusuna. Enn fremur án þess að verða fjárhagslega háður maka mínum. Ég fer í meðferð við áfallastreitu og geri upp gömul sársaukafull mál. Ég er aftur byrjaður að semja, bæði tónlist og texta. Öllum að óvörum (og mér sjálfum sérstaklega) nær tónlist mín útbreiðslu. Ókunnugt fólk tekur upp á að dreifa linkum af tölvuteiknuðum myndböndum sem dóttir mín hefur gert við lögin. Fleiri og fleiri gerast áskrifendur að öllu því sem okkur dettur í hug að setja á netið. Við erum farin að hafa einhverjar tekjur af þessu, sem er auðvitað stórkostlegt, en skiptir ekki öllu. Lífið snýst ekki um peninga.  

Nokkurn veginn svona gæti líf venjulegs fólks litið út eftir að borgaralaunin koma til sögunnar. Þau leysa ekki allan vanda, lífið er eftir sem áður fullt af missi, vonbrigðum og erfiðleikum. Ekki fyrir amatöra, eins og sagt er. En það er í okkar valdi að losa fólk úr þeirri snöru að vera alltaf að hugsa um afkomu sína.

Ef þú ert í fullri vinnu áttu ekki að þurfa að vera með hjartað í buxunum um hver mánaðarmót af því að launin þín séu svo lág. Ef þú ert atvinnulaus eða óvinnufær vegna fötlunar, veikinda eða einhvers annars áttu ekki að búa við stöðugt vantraust og eftirlit af hálfu kerfisins. Og það á ekki að liggja ranglega í loftinu að þú sért samfélaginu til ama og óþurftar.

Borgaralaun eru ekki ölmusa heldur réttindi. Upptaka þeirra leiðir til framfara, vegna þess að þegar fólk hættir að takast á um störf og peninga getur það fyrst farið að einbeita sér að náttúruvernd og mannvernd. Ég endurtek að upphæðin í launaumslaginu endurspeglar ekki verðmæti framlags okkar til samfélagsins. Og ég endurtek að það er vel gerlegt að taka upp borgaralaun. Það er meira en hægt. Það er fullkomlega eðlilegt næsta skref.

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Og hvað svo?