Ofurtölva ræst í Hafnarfirði

16.04.2012 - 18:12
Mynd með færslu
Norræn ofurtölva var formlega tekin í notkun í Advania Thor Data Center í Hafnafirði í dag. Hún er með þeim öflugustu á Norðurlöndum.

Stofnanir, sem hafa yfirumsjón með háhraðatölvum til vísindarannsókna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi, standa saman að verkefninu. Forsvarsmenn verkefnisins segja að markmiðið sé að prófa að hýsa tölvurnar nálægt orkulindunum og ná þannig umtalsverðum sparnaði. Ísland er sagt kjörið fyrir slíkar tölvur vegna náttúrulegra orkulinda sem veitt geta aðgang að orku á lágu verði og hagkvæmri kælingu. Önnur markmið eru að kanna pólitískar, skipulagslegar og tæknilegar hliðar á sameiginlegu eignarhaldi, umsjón og rekstri á svo dýru rannsóknartæki.

Jacko Koster, framkvæmdastjóri Uninett Sigma - sem sér meðal annars um rekstur ofurtölva fyrir háskóla í Noregi - segir að Norðurlöndin eyði milljónum evra í ofurtölvur. Þær séu grundvöllur vísinda og nýsköpunar - en leita verði hagkvæmra lausna þegar kostnaður við hýsingu og rekstur sé orðinn jafnhár og vélbúnaðurinn sjálfur. Ofurtölvan í Hafnafirði er með þeim öflugustu á Norðurlöndum og nær við mestu afköst 35 teraFLOPS.