Íslendingar eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem eiga allra flesta bíla á hvern íbúa, eða meira en 1000 bíla á hverja 1000 íbúa.
Til samanburðar eru 39 bílar á hverja 1000 íbúa í Afríku, 606 í Evrópu, og í Bandaríkjunum sem oft er talin mikil bílaþjóð eru samt færri bílar á mann en á Íslandi, eða 832 á hverja 1000 íbúa. „Í heildina er bílafloti Íslendinga sá orkufrekasti í heiminum. Svo oftast erum við bara ein í hverjum bíl,“ segir Sævar Helgi Bragason áður en hann tekur sér stöðu við Kringlumýrabraut í Reykjavík og bendir á fjölmörg dæmi um einmitt það.
Í sjötta þætti af Hvað höfum við gert? er meðal annars fjallað um samgöngur, bílaflota, orkugjafa og orkunotkun. Nýting endurnýjanlegra, grænna orkugjafa hefur verið nefnd sem ein mikilvægasta leiðin til að draga úr losun koldíoxíðs í heiminum og stemma stigu við loftslagsbreytingum. Ísland er þar í góðri stöðu því hér getum við framleitt raforku og hitað hús með endurnýjanlegum orkugjöfum. Samt sem áður er losun koldíoxíðs á mann á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum.
Hvað höfum við gert? er á dagskrá RÚV klukkan 21.10 á sunnudagskvöld. Hægt er að horfa á eldri þætti í spilara RÚV.