Halldór Armand spyr sig hvort fyrsta skrefið til að bjarga plánetunni felist í að „ganga sjálfviljugur inn í sólarlag öfganna sem skín skært í bakgrunni gjörvallrar tilverunnar á 21. öld.“


Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Fyrir ekki svo löngu var ég staddur inni í raftækjaverslun á annarri hæð verslunarmiðstöðvar einhvers staðar á meginlandi Evrópu. Ég leit í kringum mig og fannst ég vera inni í Kringlunni. Svipaðar flísar á gólfinu, fólkið svífandi upp og niður rúllustigana, þægileg og lítt ágeng tónlist í hátalarakerfinu. Jólaseríur fossandi niður úr loftinu. Það voru meira að segja sömu búðir þarna. sömu vörumerki, sama draslið. Verslunarmiðstöðin er staðsett í hverfi þar sem meirihluti íbúa er af tyrknesku eða arabísku bergi brotinn svo allt í kringum mig heyrði ég þessar framandi tungur. 

Ég komst ekki hjá því að finnast þetta fallegt, svona á sinn hátt. Að vera þarna inni í verslunarmiðstöð með öðrum innflytjendum, að standa upp í hnésbætur í jólaljósum- og skrauti og drasli með fólki sem heldur ekki upp á jólin, ég með minn Fjallraven-bakpoka í kaðlapeysu, ég með minn litla og saklausa norræna velferðarhaus – það vantaði í raun bara 66N-húfuna á mig – standandi í biðröð með fólki sem flutti sína eigin menningu, klæðnað og dagdrauma inn í raftækjaverslunina þennan dag, talandi tungumál sem ég skildi ekki eitt einasta orð í, við þarna öll aðskilin af óteljandi innri þáttum en um leið sameinuð af ytra umhverfi okkar, kaupandi fjöltengi á tilboði, ryksugur, snúrur, blóðþrýstingsmæla, Sodastream-tæki, og alls konar snjall-eitthvað, snjallbrauðrist, snjallhárblásara, snjalltannkrem. Sjálfur var ég þarna til að kaupa mér hátalara. Alveg rosalega góðan hátalara auðvitað, snjallhátalara nema hvað, enda var ég sannfærður um að ég gæti ekki náð markmiðum mínum næstu mánuði nema ég ætti þennan vandaða hátalara.

Ég er á leiðinni niður á neðri hæðina til að gerast skáld, sungu Procol Harum. Ég er alveg að fara að skrifa meistaraverkið mitt. Ég er á leiðinni að fara að láta drauma mína rætast … en fyrst verð ég að eignast þennan hátalara. Ég er viss um að hann mun gera gæfumuninn. 

Kapítalismi aðlagast hverju sem er

Sagt hefur verið að sú samfélagsgerð sem við búum við sé í auknum mæli það sem ég kalla hér á íslensku „heimslaus“, eða worldless, upp á enskuna. Hugmyndin er semsagt sú að alþjóðavætt markaðshagkerfi hafi þessi áhrif á daglegt líf, að við upplifum almannarýmið, og að ég myndi halda sömuleiðis smám saman okkar eigið einkalíf, sem heimslaust. Það er búið að soga innan úr því allt innihald eða stoðir sem veita því merkingu og eftir stendur eitthvað eins og, ja, til dæmis þessi verslunarmiðstöð sem ég var staddur í. Þetta var staður án einkenna, án innihalds, án merkingar og hefði þess vegna getað verið hvar sem er.

Á Íslandi, í Kóreu eða í Kongó. Þessir töfrar, þetta ekkert, sé ástæða þess að kapítalismi getur aðlagað sig að hverju sem er, breitt sig frá vestri og til austurs og norðurs og suðurs, fallið að kristnum samfélögum, og búddískum samfélögum, og harðstjórnarsamfélögum, hverju sem er, vegna þess að þegar allt kemur til alls boði hann hvorki né reiði sig á tiltekna mynd af mannlegu samfélagi. Hann skapar sannleika án merkingar, og í slíkum heimi, hefur verið sagt að einu raunverulegu mótmælin, það eina sem virkilega hreyfi við einhverju, það eina sem sé tilraun til svars, sé merkingarlaust ofbeldi, sem sagt til dæmis hryðjuverkin sem við höfum séð á myndbandi síðustu árin, þar sem ungir menn í Nike-skóm sprengja sig í loft upp.

Klassíska dæmið um heimsleysið eru vitaskuld alþjóðlegar keðjur eins og McDonalds eða Subway, nú eða krúnudjásnið sjálft, Starbucks, kaffikeðjan sem gerir út á það að vera svokallað „þriðja rými“, sem sagt staður sem staðsetur sig einhvers staðar milli þess sem þú þekkir sem heimili þitt annars vegar og vinnustað þinn hins vegar. Nýlega tók kaffikeðjan það róttæka skref að leyfa fólki að nota baðherbergi staðarins jafnvel þótt það kaupi ekki neitt, og það er hluti af því markmiði fyrirtæksisins að verða smám saman að almannarými í huga fólks. Hugmyndin er að allir séu velkomnir, öllum stundum, og þau hughrif eru framkölluð með því að drekkja staðnum í heimsleysi, sem sagt arkitektúr, húsgögnum og stemmningu sem enginn tengir meira við en annar, svo úr verður andrúmsloft sem er huggulegt en um leið algjörlega merkingarlaus og óáleitið.

Skorið er á allar taugar og strengi sem tengja kaffihúsið við ytri veruleika sinn og þá menningu eða samfélag sem hýsir það, svo úr verður staður, sem er í senn alls staðar og hvergi. Þessa dagana er líklega skýrasta dæmið um þetta á Íslandi sjálfur miðbær Reykjavíkur, sem er löngu hættur að vera hann sjálfur, ef hann þá var það einhvern tímann, og er orðinn að þægilegum en um leið merkingar- og heimslausum stað sem gæti verið hvar sem er, einhvers konar kapitalísk frummynd af miðbæ. Eins og í teiknimynd má sjá vofu miðbæjarins svífandi upp úr honum sjálfum til himins.

Hlið sannleikans

Ég sagði hérna áðan að ég hefði getað verið í Kringlunni þar sem ég stóð með hátalarann þarna í miðju mannhafinu. En ég vil ekki vera of grimmur við Kringluna. Mér hefur þrátt fyrir allt löngum þótt Kringlan vera einn mest ekta og tilgerðarlausasti staður á Íslandi og eigi virðingu skilið einmitt fyrir þær sakir. Af hverju finnst mér það? Ég er ekki alveg viss, en ég held … mig grunar að það sé vegna þess að Kringlan er sannleikur. Og hið fagra er satt, eins og skáldið sagði, og kannski er þá hið sanna líka fagurt. Já, fögur er Kringlan svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst. Kringlan er heimslaus staður sem hefur aldrei þóst vera neitt annað en hún er. Hún er hlið Íslendinga inn í sannleikann um það hvernig við lifum í dag. Það er heimur tilboðsins og góðu kaupanna, það er heimur samviskubits og sektarkenndar, það er heimur skínandi hluta, það er heimur draumsins og guðleysisins, fantasíunnar, gleði barnsins og dauðahræðslunnar. 

Og Kringlan skartar svo sannarlega sínu fínasta yfir hátíðarnar. Þetta er hennar tími. Og sjá, þarna stendur hún, Sannleikshöllin við Listabraut, sem gnæfir upp úr öllu predikanaflóðinu um að við eigum ekki að vera gráðug heldur eigum að sýna hófsemi og stillingu yfir hátíðarnar, ekki kaupa of mikinn mat, ekki borða of mikið, ekki kaupa of margar gjafir, passa neysluna, ekki of mikla neyslu, ekki of mikinn gjafapappír, muna að hugsa um umhverfið, muna að endurvinna, sem sagt, muna að hafa nógu fjandi mikið samviskubit yfir þessu öllu saman, nákvæmlega eins og alla aðra daga, til þess svo einmitt að gera ekki neitt, breyta engu til lengri tíma, til þess að ekkert breytist nokkurn tímann. 

Viltu skafmiða?

Sjálfur legg ég handlegginn yfir herðar Kringlunnar og segi með henni hið þveröfuga. Hvernig væri að leyfa sér einu sinni að gangast við veruleikanum eins og hann er, gangast við lögmálum samtímans án þess að blikka, gangast við forsendunum sem tryggja það að líf okkar er eins og það er. Hvernig væri að hlusta ekki á leiðréttan biskup með tvær milljónir á mánuði að siða okkur til með jólapredikun um græðgi, órétt og mismunun? Já, hvernig væri að lifa nokkra daga án þess að vera sífellt að tyfta sjálfan sig? Já, hvernig væri bara að einfaldlega lækka með bros á vör í útvarpinu þegar prédikunin hefst, opna í staðinn ísskápinn og setja rjómasprautuna upp í sig og þrýsta á gikkinn þar til hann segir klikk. Hvernig væri að hafa ekki samviskubit svona einu sinni? Leyfa sér svona einu sinni að ganga ekki fram og aftur um svipugöng hugans? Hvernig væri svona einu sinni að hafa ekki óskaplegar áhyggjur af því hvernig maður lifir?

Hvernig væri einmitt að kaupa of mikið, borða of mikið, drekka of mikið, fara of seint að sofa, henda of miklu, keyra of mikið, pakka alltof mikið inn, spilla börnunum, fá sér alltaf of mikið og alltof oft á diskinn, og gera þetta allt saman viljandi og af hreinræktaðri lífsgleði, í kröftugri meðvitund um það að sektarkennd einstaklinga yfir þeirra eigin lífsstíl er algjörlega innbyggð í núverandi samfélagsgerð og er það sem viðheldur henni. Þetta gengur nefnilega allt saman smurt svo lengi sem hverju og einu okkar líður hæfilega illa yfir þessu öllu saman, en aldrei nógu illa til að vilja nokkurn tímann gera eitthvað í alvörunni saman í málunum. Kannski er fyrsta skrefið að því að bjarga plánetunni einmitt ekki þessi linnulausa naflaskoðun, heldur einmitt þvert á móti að ganga sjálfviljugur inn í sólarlag öfganna sem skín skært í bakgrunni gjörvallrar tilverunnar á 21. öld. Kannski hreyfir það loksins við einhverju.

Þegar loksins kom að mér í biðröðinni og ég lagði hátalarann minn á borðið, sagði afgreiðslumaðurinn við mig:

„Má ekki bjóða þér skafmiða?“ 

„Skafmiða?“ sagði ég. „Hvað get ég unnið?“ 

„Nú, hátalarann auðvitað.“ 

Ég leit í kringum mig og sá að aðrir viðskiptavinir voru í óða önn að skafa einbeittir á svip á næstu kössum. 

„Hvað kostar það?“ spurði ég. 

„Ekkert.“ 

„Hvað meinarðu? Það hlýtur að vera eitthvað í húfi hérna.“ 

„Ef þú skafar þá gefurðu frá þér 14 daga skilaréttinn,“ sagði afgreiðslumaðurinn. 

„Svo ég get unnið hátalarann, en ég mun ekki geta skilað honum, hvort sem ég vinn eða tapa.“ 

„Ég myndi ekki hika við það,“ svaraði afgreiðslumaðurinn. „Af því þetta er drullugóður hátalari.“

„Hverjar eru vinningslíkurnar?“

„Hmm … ég er ekki viss. Leyfðu mér að athuga. Já, það er einn á móti ellefu.“

„Það er ellefti hver sem vinnur,“ sagði ég.

„Aha. Einmitt.“

„Sama og þegið,“ sagði ég og rétti honum greiðslukortið, en gat ekki varist því að hugsa á sama tíma: „Það er fullkomnað.“