Ófá þorrablótsdress á kjólasýningu á Eskifirði

16.07.2017 - 21:57
Sýning á kjólum eftir Fanneyju Lovísu Guðnadóttur saumakonu hefur verið opnuð á Eskifirði. Hún helgaði líf sitt því að búa til spariföt á annað fólk og eftir hana liggja margir dýrgripir.

Sýningin var opnuð í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þann 7. júlí en þá hefði Fanney orðið 100 ára. Þar má sjá spariföt af ýmsu tagi sem Erna Nielsen, mágkona hennar, hefur fengið lánuð úr ófáum fataskápum. „Fanney Guðnadóttir var saumakona. Hún byrjaði að sauma fyrir fermingu og svo lærði hún saumaskap í Reykjavík, varð kjólameistari og vann alla tíð við sauma,“ segir Erna.

Fanney saumaði aðallega kjóla enda var eftirspurnin eftir þeim stundum mikil. „Þetta er þorrablótskjóll og við þurftum nýjan þorrablótskjól á hverju ári til að teljast vera nógu fínar. Og það var alveg rosalega erfitt ef menn voru kannski í sama sniði og einhver önnur. Þá fóru menn bara heim og höfðu skipti á kjól.“

Eitt helsta djásnið er kjóll úr ullarvoð sem Kristín Bárðardóttir frá Ísafirði óf en Fanney sneið til og saumaði. „Þetta er ofið í voð og síðan er þetta sniðið og munstrið; reynt að hafa það eins og sjá má á kjólnum, bæði á ermum, kraga og niður kjólinn í miðju,“ segir Erna.

Á sýningunni eru um 40 flíkur, aðeins lítið brot á ævistarfi Fanneyjar sem átti það til að endurbæta og breyta keyptum flíkum ef henni fannst þær ekki passa nógu vel. „Vandvirkni, útsjónarsemi og að allt færi eins vel á hverri manneskju sem hún saumaði á og það var hægt. Þetta er hennar einkenni.  Mér finnst alveg nauðsynlegt að sýna hvað hún var ötul og saumaði mikið á þessum 60-70 árum sem hún saumaði,“ segir Erna Nielsen, mágkona Fanneyjar. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV