Árni Stefán Árnason, lögmaður sem hefur sérhæft sig í málum dýraverndar, segir dómara hafa verið of milda á refsingar við dýraníð. Refsiramma í á málaflokknum hafi aldrei verið beitt og fordæmi vanti til að hafa fælniáhrif. Hann gagnrýnir það að Matvælastofnun fari fyrir rannsókn þessara mála.

Í fyrrakvöld fannst köttur í Hafnarfirði illa leikinn eftir dýraníðing. Búið var að festa band við háls hans og hann þannig festur við tré. Loppur hans voru bundnar saman og band bundið um maga. Á kettinum voru augljós merki um pyntingar og drep komin í sár. Kettinum var bjargað af vegfaraenda en dýraníðingurinn er enn ófundinn.  Árni Stefán Árnason ræddi þetta mál og önnur dýraníðsmál í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun.  

Refsirammanum aldrei beitt

„Einu sinni er alltof algengt. Þetta kemur fyrir af og til. Þetta er svo hrottaleg meðferð.  Það er svo erfitt að ímynda sér verri meðferð á dýri eins og lýst var í fréttum í gær. En þá spyr maður sjálfan sig sér hvernig tekið er á þessu málum. Það er tekið á þessu með þeim hætti að Matvælastofnun er ætlað að rannsaka málið, síðan er þetta kært til lögreglu og svo fer þetta kannski fyrir dómstóla. Dómarar hafa verið ansi mildir á refsingar vegna þess að refsiákvæðið er mjög skýrt í þessum lögum. Það getur varðað allt að tveggja ára fangelsi að gera svona lagað en þeim refsiramma hefur aldrei verið beitt því miður. Það þarf að sýna svolítið fordæmi í því. Til að hafa fælniáhrif. En það sem er erfitt í svona málum er að finna þann sem veldur. “

Sjaldan kemur til þess að ákæra er gefin út í þessum tilteknu málum. Þar liggur vandinn oft í því að erfitt reynist að finna þá sem voru að verki.  „En það vekur svolítilita undrun hjá manni að það hafa komið uppp mjög alvarleg mál, sem sjónvarpið hefur meðal annars fjallað um eins t.d. brúnegg, þar sem var gríðarlegt dýraníð. Þar var aldrei gefin út ákæra. Það var bara vörslusvipting og öll starfsemi bönnuð. Þetta skil ég ekki sem lögfræðingur. “

Aukin dýraeign ýtir undir þörf á sérhæfingu

Árni gagnrýnir það hvernig rannsókn á þessum málum er hagað. Hann segir Matvælastofnun ekki leggja mikinn kraft í það að hafa uppi á einstaklingum sem beiti dýraníð enda sé það nánast ógerlegt. Að hans mati er undarlegt að löggjafinn hafi ákveðið að láta það í hendur dýralækna að rannsaka brot á lögum um dýravelferð sem varði refsingu. Dýralæknar og lögfræðingar sem sjái um þessi mál hjá Matvælastofnun séu yfirhlaðnir störfum og hafi ekki burði til að sinna þessum málum nægilega vel. Hann segir aukna dýraeign hér á landi ýta undir þörf á sérhæfingu, þar kæmi til greina að sérstök dýralögregla tæki þessi mál til rannsóknar eins og tíðkast annars staðar í heiminum.

„Ég vil hafa hér eins og tíðkast í Noregi, þar er sérstök lögregla sem heitir dýralögregla og er í fleiri löndum í heiminum , sem einbeitir sér að þessum málaflokki og hún er bara með aktíva einstaklinga í því að rannsaka svona mál sem hafa sérþekkingu í því. Þar er málið unnið faglega samkvæmt lögum,“ segir Árni Stefán.

Árni fagnar aukinni umræðu í samfélaginu um málaflokkinn en bætir við að „umræðan er eins og um öll önnur mál, hún er lifandi í nokkra daga og síðan gleymist hún. Því míður er það þannig. Það er ekki mikil eftirfylgni. “

Hlusta má á viðtalið við Árna Stefán í heild sinni í spilaranum hér að ofan.