Óeirðir eftir forsetakosningar í Keníu

09.08.2017 - 13:21
Erlent · Afríka · Kenía
epa06133488 Supporters of the opposition leader Raila Odinga, who leads The National Super Alliance (NASA) coalition, shout slogans during a protest after Odinga announced that he rejects the provisional result of the presidential elections announced by
 Mynd: EPA
Stjórnarandstæðingar efndu til óeirða í Vestur-Keníu í morgun til að mótmæla úrslitum forsetakosninganna í gær. Raila Odinga, helsti keppinautur Uhurus Kenyatta, Keníaforseta, véfengir niðurstöður forsetakosninganna og segir að brögð hafi verið í tafli.

Óeirðalögregla beitti í morgun táragasi gegn hundruð stjórnarandstæðingum sem köstuðu grjóti og kveiktu í vegatálmum eftir að Odinga forsetaframbjóðandi sakaði Uhuru Kenyatt forseta um víðtækt kosningasvindl, meðal annars með tölvuinnbrotum. Kjósendur segjast hafa vonast til breytinga og að ekki komi til átaka vegna úrslitanna.

Búið var að telja ríflega ellefu milljónir atkvæða þegar yfirkjörstjórn birti fyrstu tölur. Samkvæmt þeim hafði Kenyatta fengið um 55 prósent atkvæða en Odinga 44 prósent, og munaði ríflega 1,1 milljón atkvæða á frambjóðendunum tveimur. Odinga boðaði til fréttamannafundar í morgun og fullyrti að kjörstjórnin hefði falsað kosningaúrslitin. Spáð hafði verið hörðum og jöfnum slag milli þeirra Odinga og Kenyatta.

Þetta er í fjórða sinn sem Odinga tapar í  forsetakosningum. Eftir kosningarnar 2007 brutust víða út óeirðir, sem urðu að blóðugum átökum og hjaðningavígum andstæðra fylkinga, þar sem uppruni skipti ekki minna máli en stjórnmálaskoðanir. Yfir 1.100 voru drepnir í kjölfar kosninganna og um 600.000 hröktust á vergang.