Þórunn Egilsdóttir, þingflokkksformaður Framsóknarflokksins, segir það skipta meira máli að jarðir séu nýttar en hver eigi þær. Það sé ekki góð þróun að missa jarðir úr ábúð og búskap. Það sé þróun sem ekki verði við unað.
Rætt var við Þórunni á Morgunvaktinni. „Við þurfum að leita allra leiða til að nýta jarðirnar og okkur vantar stefnu. Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að nýta jarðirnar til landbúnaðarframleiðslu og matvælaframleiðslu. Og það á að gilda jafnt um Íslendinga sem útlendinga sem kaupa jarðirnar, hvernig þær eru nýttar, og við þurfum að hafa skýra stefnu og sýn í því og það fer hver að verða síðastur um það.“
Dýrar jarðir
Þórunn segir að þeir sem hyggjast stunda landbúnað þurfi að vera í forgangi og gera þurfi fólki auðveldara að kaupa jarðirnar. „Þær eru margar í gríðarlega háu verði. Við búum við það hérna í Vopnafirði að það eru mikil veiðihlunnindi með jörðunum og annað. Hér eru miklar laxveiðiár í þessari sveit en þær hafa líka verið góður stuðningur við landbúnaðinn í gegnum tíðina og menn hafa haft aukatekjur af því. Margir sem hafa keypt jarðir eru bara að horfa til veiðihlunnindanna en vilja að þær séu byggðar. Margir hafa byggt upp jarðirnar og séð til þess að fólk sé að búa á þeim áfram. Það er líka mjög jákvætt, við verðum að muna eftir því.“
Þórunn var spurð að því á Morgunvaktinni hvort hún væri hlynnt jarðakaupum útlendinga. „Við megum auðvitað ekki missa landið allt frá okkur og selja það frá okkur. En ég held að meginpunkturinn snúist um það hvernig við ætlum að nýta landið, það snýst algjörlega um það. Við ætlum að hafa landið í byggð, stunda hér matvælaframleiðslu og byggja jarðirnar en hafa landið allt blómlegt og uppbyggt. Ekki í því að drabbast niður og tún í órækt. Þá verða þær reglur að gilda að menn verða að sitja jarðirnar og búa á þeim.“
Sömu reglur um alla
Þórunn gerir ráð fyrir að jarðakaup útlendinga verði tekin fyrir á Alþingi í haust. „Við bara verðum að gera það.“ Einnig þurfi að taka ákvörðun um hvað gera eigi við ríkisjarðir.
Þórunn segir að jarðakaup útlendinga hafi átt sér stað lengur en fólk geri sér grein fyrir og ekki aðeins á Austurlandi. „Mér skilst að það séu heilu sveitirnar á Suðurlandi sem hafa verið keyptar upp. En það hafa líka Íslendingar verið að kaupa jarðirnar sem hafa ekki verið að nýta þær til búskapar. Þess vegna segi ég að það þurfa að vera reglur á heildina, fyrir alla sem kaupa jarðir.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.