María Kristjánsdóttir gagnrýnandi segir að það sé full ástæða til að óska Brynhildi Guðjónsdóttur, leikstjóra Ríkharðs þriðja í Borgarleikhúsinu, til hamingju með árangurinn. „Og þennan nýja „ég líka“ lestur á Ríkharði þriðja þar sem henni tekst svo vel til að harðsvíraður áhorfandi lætur blekkjast af leikhúsinu.“


María Kristjánsdóttir skrifar:

Ríkharður III er einn af svokölluðum söguleikjum Shakespeares en þeir fjalla um valdabaráttu aðalsins, smákónga, sem háð var á Englandi frá lokum 14. aldar og alla þá næstu, þá fimmtándu. Ýmist er þar barist til valda eða til að treysta völd. Morð, ofbeldi, svik einkenna þá baráttu, blóðið flýtur. Fyrst eru fjandmenn myrtir, svo bandamenn og vinir, svo þeir sem geta gert tilkall til valdanna. Konungi tekst þó aldrei að ganga af öllum dauðum, einhver leynist einhvers staðar sem er réttborinn, safnar liði og leggur hann að velli. Nýr konungur verður ætíð til í lok verksins. Um þetta, veginn til valda, fjallar sem sagt Ríkharður III sem er eitt lengsta sögulega leikritið og er yfirleitt stytt í nútímauppfærslum. Persónur eru strikaðar út og til að skekkja ekki framvindu þessa vel uppbyggða leikrits eru tengingar samdar og með nýjum atriðum er það oft aðlagað að samtímanum. Það er einnig gert í jólasýningu Borgarleikhússins og eru það leikstjórinn Brynhildur Guðjónsdóttir og leikskáldið og dramatúrg hússins Hrafnhildur Hagalín sem vinna það verk. Og annað leikskáld Kristján Þórður Hrafnsson þýðir textann að nýju.

Tveir þættir eru sterkastir í sviðsetningunni utan valdabrölts Ríkharðs. Annars vegar samtal Ríkharðs við áhorfendur frá upphafi. Í því samtali reynir hann að heilla okkur, gera okkur að samherjum sínum; því sambandi heldur hann nær sýninguna út í gegn; gerir okkar nánast meðseka í glæpaverkunum. Það er undirstrikað ennfremur af Ilmi Stefánsdóttur leikmyndarhöfundi sem á ákveðnum augnablikum rennir inn á sviðið áhorfendabekkjum þar sem persónur og leikarar sitja og horfa á atburði ef þeir eru ekki að leika. Þessir bekkir kallast á við sæti okkar í lit og formi. Svið og salur sameinast sem sagt í mynd  og er það reyndar ísmeygileg tilvitnun í annað leikrit Shakespeares þar sem segir að allur heimurinn sé leikhús.

Hinn þátturinn sem er ríkjandi í sýningunni er sá, að konunum í verkinu er lyft fram. Konunum sem Ríkharður hefur svipt feðrum, eiginmönnum og börnum, konunum sem hann svívirðir eða vill svívirða. Konunum sem eru valdalausar og eiga aðeins eitt vopn: bölbænir. Konunum er lyft fram í aðlöguninni, staðsetningum, myndmáli sviðs og búninga. Róttækast þar er að ný persóna Elísabet af Jórvík leikin af Sólbjörtu Sigurðardóttur verður til úr textum ýmissa annarra persóna. Hvít eins og sakleysið, vonin, dansar hún í bakgrunni svikráða aðalsmanna og biskupa. Og fer svo fyrir öllum konum verksins í lokamyndinni, á þar lokaorðin sem Shakespeare úthlutaði að venju hinum nýja konungi.

Ein af aðalástæðunum fyrir að sýningin nær fögru flugi, en það gerir hún, er hin ákaflega leikvæna þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Svo eðlileg hljómar hún af vörum leikaranna og nálæg í tíma, stundum jafnvel stráksleg en þó upphafin í brag og full virðingar gagnvart frumtextanum. Ég get líka fullyrt að sjaldan sér maður listræna stjórnendur vinna svo vel saman og þó svo sjálfstætt – til að koma til skila sameiginlegum hugmyndum sínum til áhorfenda. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er að vanda frjó og heillandi. Allt stóra sviðið er einn víðáttugeimur, jörð sviðin, allra aftast op sem nýtt er til að láta þá birtast sem halda þarf utan við meginatburðarás, annars nýttir munir úr leikhúsinu sjálfu, meðal annars sessur úr bekkjunum sem áður var minnst á, og stórri ljósabrú rennt niður úr lofti til að gefa drottningu sterka innkomu. Björn Bergsteinn Guðmundsson, ljósameistarinn, skapar með Ilmi rými og fagrar og grimmar myndir sem unun er á að horfa. Búningar Filippiu Elísdóttur og gervi Elínar Gísladóttur eru skemmtilegt sambland af fantasíu og nútímabúningum, búningur krypplingsins Ríkharðs feiknagóður og vísar í kvikmyndaarfinn. Sumir búningar eru þó, einkum sumir venjulegu karlbúninganna, þannig að ég fann þeim enga merkingu nema þá augljósu að enn sæti allt við það sama í mannheimum. Tónlist Daniels Bjarnasonar styður vel og styrkir sýninguna. Dansar Valgerðar Rúnarsdóttur eru ekki aðeins til skreytinga.   

Brynhildur Guðjónsdóttir setur ekki aðeins dans heldur einnig söng tvisvar inn í sýninguna til að undirstrika tilfinningar eða ná fram andstæðum. Níu leikarar leika öll hlutverk aðlögunarinnar og gengur það vel upp, nema þegar búið er að hálshöggva með miklum tilþrifum Hasting lávarð sem leikinn er og sunginn af Jóhanni Sigurðarsyni, þá birtist Jóhann bara aftur í næstu senu sem borgarstjóri svo ætla mátti að framliðinn væri mættur. Er það nú ekki helst til mikil kostnaðarvitund hjá gjaldkerum leikhússins?

Flutningur leikaranna á bragnum er einstaklega góður og sama er að segja um samleik þeirra og flestar leiklausnir Brynhildar. Innkoma Kristbjargar Kjeld sem Margrét ekkjudrottning var glæsileg, aðeins stórleikkonur geta tekið svona yfir víðáttusvið og sal með nærveru sinni. Rétt er einnig að minnast á að Þórunn Anna Kristjánsdóttir tekur nýtt skref á leikferli sínum í hlutverki lafði Önnu sem lætur Ríkharð fleka sig á banabeði föður síns og síðasta myndin af henni brennist inn í vitundina. Aðalhlutverkið Ríkharð, hertogann af Glostri, leikur hinn ungi leikari Hjörtur Jóhann Jónsson. Hann ýkir ekki um of líkamlega fötlun persónunnar enda er persónan að hluta tákn fyrir karlmennsku. Fláttskapur hans í metorðaklifinu, sjálfumgleði hans þegar hann svíkur mann og annan, daður hans við okkur áhorfendur er leikandi létt en í allan húmorinn vantar kannski stundum þau klókindi myrks hugar sem framgangur hans byggist á. Í heild hefur hann hins vegar þann kraft sem þarf til að leiða verkið áfram, gera það áhugavert, sem er afrek.

Það er full ástæða til að óska Brynhildi Guðjónsdóttur til hamingju með árangurinn. Og þennan nýja „ég líka“ lestur á Ríkharði þriðja þar sem henni tekst svo vel til að harðsvíraður áhorfandi lætur blekkjast af leikhúsinu og lætur telja sér trú um það eitt andartak að miðöldum karlaveldisins sé lokið, með bölbænum hafi yfirstéttarkonur, af öllum konum, getað lagt að velli grimma harðstjóra og vopnaskak.  

Einnig er rétt að óska forystu Borgarleikhússins til hamingju með það hvar hún stendur í dag því að enginn alls óreyndur leikstjóri skilar slíku verki nema með traustu samstarfsfólki og bakhjörlum í leikhúsi með listrænan metnað.