Ómar Ragnarsson flaug yfir jarðeldana í gær og tók myndir af glóandi hraunbreiðunni. Enn vellur kvikan upp og stækkandi hraunbreiðan hrekur Jökulsá á Fjöllum á undan sér og sumstaðar myndar áin eins og ílangt lón. Annarsstaðar rennur hún í gegnum þrengingar.
Áin þrýstist upp í hækkandi land, gæti flætt yfir brú og myndað nýtt lón þar til hún nær að brjótast í gegnum hraunið.
Gas frá jarðeldunum í Holuhrauni lá yfir landinu í dag í vægri austanátt.
Ámann Höskuldsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, sagði í hádegisfréttum að vísindamenn hafi tengt hræringarnar í Bárðarbungu við jarðeldana í Holuhrauni. Skoða þurfi betur hvort þetta geti verið aðskildir atburðir að einhverju leyti og ekki sé útilokað að það gjósi á fleiri stöðum. Mikil gasmengun er enn frá Holuhrauni sem losar um það bil fjórum sinnum meira brennisteinsdíoxíð en öll ríki Evrópusambandsins samanlagt. Hægur vindur undanfarna daga hefur orðið til þess að mengunin liggur yfir landinu og veldur óþægindum.