Ný þáttaröð um ungt hinsegin fólk er frumsýnd í dag á vef RÚV. Í þessum fyrsta þætti af sex, er fjallað um samkynhneigð og staðalmyndir.

Hinseginleikinn er ný þáttaröð fyrir ungt fólk og fjallar um hinsegin fólk. Hinseginleikinn hóf upphaflega göngu sína sem Snapchat-rás til að fræða ungt fólk um hinsegin málefni og svara þeim spurningum sem það kann að hafa. Um 250 hinsegin ungmenni hafa tekið að sér umsjón Snapchat-rásarinnar. 

Ingileif Friðriksdóttir, annar stofnandi Hinseginleikans, hefur undanfarið haldið fyrirlestra í framhaldsskólum landsins. Nú, tæpum tveimur árum eftir stofnun rásarinnar, er þáttaröðin Hinseginleikinn komin á vef RÚV og leitast við að svara þeim spurningum sem enn eru ríkjandi í íslensku samfélagi, til dæmis: Er samkynhneigð meðfædd? Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur að minnsta kosti að svo sé. 

Í næstu þáttum af Hinseginleikanum verður meðal annars fjallað um trans fólk, intersex fólk, kynsegin fólk, pan- og tvíkynhneigt fólk og eikynhneigt fólk. Þættirnir verða aðgengilegir á RÚV.is, Facebooksíðu RÚV og í VOD leigum símafélaganna. 

Þættirnir eru framleiddir af RÚV núll, nýrri þjónustu RÚV við ungt fólk.