Mynd með færslu
18.08.2017 - 11:52.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Nýjasta plata Hafdísar Huldar ber með sér þægilegt, ljúfstreymt popp með nettu nýbylgjukryddi. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Hafdís Huld, sem fyrst kom fram á sjónarsviðið með GusGus, hefur verið að gefa út sólóplötur reglubundið í rúm tíu ár, eða síðan Dirty Paper Cup kom út árið 2006. Hún hefur verið tveggja manna maki að þessu leytinu til, því auk „venjulegra“ poppplatna hefur hún líka gefið út nokkrar barnaplötur. Síðasta plata hennar af fullorðinstaginu er Home, sem kom út 2014, og hafa allar plötur hennar komið á alþjóðlegum vettvangi en Hafdís túrar þær reglulega og hefur meðal annars leikið í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.

Smátt

Dare to Dream Small (frábær titill) var tekin upp í Stúdíó Suðurá í Mosfellsdal veturinn 2016 - 2017 og um útsetningar og upptökustjórn sá Alisdair Wright, samstarfsmaður og unnusti Hafdísar. Það er margt með þessari plötu. Tónlistinni mætti lýsa sem nokkurs konar nýbylgjupoppi, nett þjóðlagaskotnu. Lögin streyma áfram þægilega og ljúflega, einföld að uppbyggingu; björt, grípandi og melódísk. Nú er líka reynslan farin að vinna með Hafdísi, þó að platan sé á yfirborðinu tiltölulega einföld poppplata er upplagið, rennslið og byggingin þannig að aðeins þeir sem hafa verið að slípa steininn til í einhver ár geta staðið að svona hlutum. Hljómur allur er t.d. afar góður, hljóðfæri, útsetningar og söngur Hafdísar, allt er þetta einkar smekklegt og í samræmi við það sem lagt er upp með.

Á köflum hefði ég þó viljað fá ögn meiri fjölbreytni. Sérstaklega í upphafi, þegar komið er í fimmta lag t.d. minna lögin heldur mikið á hvort annað og manni er farið að leiðast þófið. En þó að platan rúlli mestan part sólarmeginn bregður og skuggum fyrir. „Underdog“ og „Is it better?“ brjóta upp stemninguna um miðbikið, angurvær lög sem eru vel heppnuð. Textinn í „Underdog“ er mjög góður, fjallar um fórnarlambið þar sem „the tiny glass is never full“. „By the Road“ er svo „smáskífa“ plötunnar, frábært lag sem er smellur af Guðs náð.

Fallegt

Dare to Dream Small er góð plata. Hún á það til að detta í einsleitni, eins og ég nefni, en heilt yfir rennur hún fallega og þægilega. Maður vex inn í hana.  Titillinn vísar þá í nægjusemi og auðmýkt og leika þessir þættir um plötuna, textalega og tónlistarlega séð, og þetta eru gildi sem Hafdís hefur haldið glæsilega á lofti í listsköpun sinni undanfarin ár.

Tengdar fréttir

Tónlist

Þegar hjartað springur af harmi

Tónlist

Dansvænt Skandi-popp

Menningarefni

Ham er besta hljómsveit í heimi

Tónlist

Firnasterkt nýbylgjurokk