Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, segir það óskhyggju að lífskjarasamningurinn verði grundvöllur nýrrar þjóðarsáttar. Samningurinn standi á brauðfótum. Hann segir útlitið ekkert sérstaklega gott fyrir komandi kjaraviðræður kennara.

Ragnar gagnrýndi lífskjarasamninginn á ársfundi sambandsins í dag. Hann segir að stórum spurningum í kjaramálum opinberra starfsmanna sé enn ósvarað. „Ég held að það sé óskhyggja að þessir samningar dugi sem grundvöllur einhverjar nýrrar þjóðarsáttar. Þar þarf meira að koma til og þar munar langmestu um það að það eru gríðarlega stór mál á bakvið tjöldin; almannatryggingamál, lífeyrismál, vinnumarkaðsmál sem hafa verið viðvarandi viðfangsefni stjórnvalda og vinnumarkaðarsins árum saman sem sitja öll föst,“ segir hann. 

„Eitt sem einkennir öll þessi mál er grundvallarskortur á trausti í viðræðum aðila vinnumarkaðarins í garð stjórnvalda og þar til að við förum að vinna í þessu trausti sem þarf þá verður engin ný þjóðarsátt. Á meðan hún er ekki til staðar þá munu þessir samningar standa á brauðfótum,“ segir Ragnar. Þá þurfi að svara því hvort stjórnvöld muni efna þau heit að jafna launakjör milli almenna markaðarins og hins opinbera. Í samningunum séu stigin ákveðin skref í að jafna kjör lægstu hópanna og nú þurfi stjórnvöld að jafna kjörin þar fyrir ofan.

„Það er líka ljóst að inn í hann eru skrifuð ekki einföld, ekki tvöföld heldur þreföld eða fjórföld tryggingarákvæði um að fylgja öðrum í launaþróun. Þannig að þessi lífskjarasamningur er, ef allt fer á versta veg og hlutirnir hafa haft tilhneigingu til þess á Íslandi, ef allt fer á versta veg mun þetta vera tímabundið frávik frá höfrungahlaupinu sem hér hefur einkennt vinnumarkaðinn allt of lengi,“ segir formaðurinn.

Kennarasambandið undirbýr sig nú fyrir komandi kjaraviðræður. Kjarasamningar framhaldsskólakennara losnuðu 31. mars en kjarasamningar leikskólakennara og grunnskólakennara losna í sumar. Ragnar segir sambandið bíða eftir útspili stjórnvalda. „Ef við drögum lærdóm af reynslunni þá er útlitið ekkert sérstaklega bjart. Þess vegna þurfum við einhverja nýja nálgun. Ég tel og ég fullyrði að innihaldsefnið sem vanti sé að hér hafi ekki verið farið markvisst í það að byggja upp þetta traust. Þannig að það sé hægt að treysta því að hagsmuna fólks sé gætt. Að fólk þurfi ekki að ganga til hverrar kjarasamningalotu með það hugarfar að ef ekki verður barist fyrir hverri einustu krónu þá muni enginn gæta hagsmuna þeirra.“