Ný ríkisstjórn kynnt á morgun

09.01.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tekur formlega við á morgun. Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, verður kynntur flokksstofnunum stjórnarflokkanna í kvöld og gerður opinber á morgun. Ríkisstjórnin tekur formlega við á miðvikudag. Bjarni ræðir einslega við þingmenn flokksins í dag áður en hann tekur ákvörðun um hverjir fá ráðherrastól.

 

Myndun nýrrar ríkisstjórnar er svo gott sem lokið. Stjórnarsáttmálinn kynntur flokksfólki í flokkunum þremur í kvöld en lítið hefur frést um innihald stjórnarsáttmálans.

Björt framtíð og Viðreisn töluðu í kosningabaráttunni fyrir kerfisbreytingum í landbúnaði og í sjávarútvegi og því líklegt að einhverjar breytingar þess efnis verði boðaðar í stjórnarsáttmálanum. Þá er líka viðbúið greint verði frá lendingu flokkanna þriggja varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálin og hvort hún verði haldin síðar á kjörtímabilinu. Viðreisn lagði líka mikla áherslu á efnahagsmálin og talaði fyrir breyttri efnahagsstjórn.

Áfram tíu ráðherrar

Allt bendir til að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verði fimm, auk þess sem flokkurinn skipi forseta Alþingis, sem þykir ígildi ráðherraembættis. Ráðherrar Viðreisn verði þrír og Bjartrar framtíðar tveir. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að engin ákvörðun hefði verið tekin um það hvort þingmenn flokksins láti af þingmennsku eða ekki á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Björt framtíð fékk fjóra þingmenn kjörna í þingkosningunum í október. Tveir þeirra setjast á ráðherrabekk.

Talið er að Bjarni Benedktsson ræði í dag við þingmenn einslega, eins og sterk hefð er fyrir í Sjálfstæðisflokknum við þessar aðstæður. Síðan taki hann ákvörðun um hverjir fá ráðherraembætti. Fyrir liggur að Bjarni verður forsætisráðherra og Ólöf Nordal verður ráðherra. Hún er hins vegar í veikindaleyfi og þarf því að leysa hana af. Ólöf er eina konan sem leiðir lista flokksins. Nafn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hefur oft verið nefnt sem ráðherraefni og einnig nafn Svanhildar Hólm Valsdóttur en ekkert er staðfest um það.

Hjá Viðreisn er viðbúið að Benedikt Jóhannesson verði fjármálaráðherra. Þá verði þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson einnig ráðherrar. Hjá Bjartri framtíð er talið líklegt að Óttarr Proppé verði heilbrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.

Ný ríkisstjórn taki við á miðvikudag

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar verður kynntur í kvöld, á fundum stofnana og stjórna flokkanna þriggja. Búist er við að stjórnarsáttmálinn verði kynntur opinberlegar á morgun. Ráðherrar verði svo kynntir á fundum þingflokka annað kvöld. Ný ríkisstjórn taki síðan við á miðvikudag. 

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV