Notuðust við duldar auglýsingar á kökudeigi

17.05.2017 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Krónan og fyrirtækið 17 sortir hafi notast við duldar auglýsingar með færslum á Instagram þar sem kökudeig 17 sorta var auglýst. Neytendastofa telur að færslunar hafi verið þannig úr garði gerðar að vafi hafi leikið á því að þær voru auglýsingar og slíkt væri ósanngjarnt gagnvart neytendum.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu. Þar segir enn fremur að Krónan og 17 sortir geti ekki borið fyrir sig vanþekkingu á lögum og reglum eða traust til auglýsingastofunnar sem skipulagði herferðina. Fyrirtæki beri sjálf ábyrgð á viðskiptaháttum sínum.

Í úrskurði Neytendastofu kemur fram að hún hafi fengið ábendingar um auglýsingarnar en þetta hafi verið fjórtán færslur á Instagram frá 12 notendum samfélagsmiðilsins.  Í þeim hafi ágæti 17 sorta verið tíundað og skýrt tekið fram að vörurnar fengjust aðeins í verslunum Krónunnar. Sama myllumerki hafi verið á öllum auglýsingum - #krónan #17sortir #aðeinsíkrónunni og #jól2016. 

Krónan gaf þá skýringu að verslunin hefði fengið fyrirtækið Ghostlamp til að stýra herferðinni. Myllumerkin hafi átt að gefa til kynna að viðkomandi hefðu fengið greitt fyrir umfjöllunina og hverjir stæðu að baki færslunum þeirra.  Engum hafi dulist að umfjöllun þessara notenda hafi verið kostuð - þessi aðferð sé alþekkt og notuð af fjölda fyrirtækja. Það sé því rangt að enginn af færslunum á Instagram hafi verið merkt sem auglýsing. 

Krónan tók jafnframt fram að það hefði treyst Ghostlamp vegna þekkingar fyrirtækisins á samfélagsmiðlum. Teljist Króna brotleg vilji fyrirtækið taka skýrt fram að enginn ásetningur hafi legið að baki. 

Neytendastofa segir að færslunnar á Instagram hafi ekki gefið til kynna að þær voru auglýsing. Þær hafi verið þannig úr garði gerðar að vafi hafi leikið á því að þær væru auglýsing og slíkt væri ósanngjarnt gagnvart neytandanum.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV