Norrænir forsætisráðherrar skora á Trump

02.06.2017 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og forsætisráðherrar annarra Norðurlandanna sendu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna sameiginlegt bréf í gær þar sem þeir skoruðu á hann að standa við Parísarsamninginn.

Bjarni er nýkomin af fundi með forsætisráðherrum Norðurlandanna. Hann segir að það séu mikil vonbrigði að Bandaríkin dragi sig út úr Parísarsamningnum en mikill einhugur hafi verið á Norðurlöndunum sem hafi mikið fram að færa í loftslagsmálum. 

„Þetta er ákveðið skref afturábak en við verðum að vona að Bandaríkjamenn ætli engu að síður að leggja sitt af mörkum. Fyrir okkur er ekki annað að gera en að halda áfram.  
Hafa Íslendingar komið einhverjum skilaboðum til Bandaríkjamanna?  Já forsætisráðherrar Norðurlandannna sendu forseta Bandaríkjanna sérstaka áskorun þar sem skorað var á hann og bandarísk stjórnvöld að standa við Parísarsamkomulagið og minnt á það að við stæðum öll saman í þessu.“ 

Áskorunin var send bréfleiðis en var líka birt á samfélagsmiðlum. Bjarni segir að Norðurlöndin hafi mikið sameiginlega fram að færa. Hvaða áhrif hefur þetta á stöðu Bandaríkjanna? 
 
„Það er ekki gott að segja. Við verðum að sjá hvað menn ætla sér að gera. Það er eitt að menn ætli ekki að taka þátt í Parísarsamkomulaginu, ekki að undirgangast þær skuldbindingar sem þar eru, annað er að hvað menn ætla að gera í loftslagsmálum almennt og það getur vel verið að þessi ríkisstjórn Bandaríkjanna sé með áform þó þeir séu ekki tlbúnir til að undirgangast Parísarsáttmálann um að ná árangri. Það er það sem á endanum hlýtur að skipta mestu máli að það sé verið að vinna í átt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“