Nöfn vottanna í máli Roberts Downeys ekki birt

22.06.2017 - 20:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðuneytið mun ekki birta nöfn þeirra sem vottuðu um góða hegðun lögfræðingsins Roberts Downeys, sem áður het Róbert Árni Hreiðarsson, þegar hann sótti um uppreist æru til ráðuneytisins í fyrra. Vottorð um góða hegðun frá tveimur „valinkunnum einstaklingum“ er skilyrði fyrir því að hægt sé að fá uppreist æru.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í dag í tilefni af fréttaflutningi af máli Roberts, sem hófst þegar Hæstiréttur samþykkti að hann fengi lögmannsréttindi sín að nýju. Í dómnum kom fram forseti hefði, að tillögu innanríkisráðherra, veitt Roberti uppreist æru í fyrrahaust. Robert hlaut árið 2008 þriggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að umsókn Roberts um uppreist æru, og þar með vottorðin tvö, séu vinnugögn, heyri þar af leiðandi ekki undir upplýsingalög og því sé ráðuneytinu óheimilt að afhenda þau.

Allir fá uppreist æru ef þeir uppfylla skilyrði

Þá segir í tilkynningunni að undanfarin 35 ár hið minnsta hafi umsækjendur um uppreist æru undantekningalaust fengið hana ef þeir uppfylla öll lögformleg skilyrði til þess. Tegund brots hafi þar engin áhrif.

„Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að ef breyta eigi áratuga langri framkvæmd við veitingu uppreistar æru þurfi löggjafinn mögulega að koma að því. Ráðherra hefur þegar farið fram á skoðun innan dómsmálaráðuneytis hvað þetta varðar og mögulega þörf á breytingu á löggjöf,“ segir í tilkynningunni.

Þá sé nú verið að taka saman upplýsingar í ráðuneytinu um fjölda umsókna um uppreist æru sem verði birtar á heimasíðu þess.