Níu af ellefu markmiðum á rauðu

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Í fyrra ferðuðust tæplega milljón ferðamenn um Ísland á bílaleigubílum. Á árunum 2014 til 2016 tvöfaldaðist álag vegna umferðar bílaleigubíla hér á landi. Slysum hefur á sama tímabili fjölgað. Samgöngustofa hefur ekki getað treyst á fjárveitingar til umferðisöryggisáætlunar og stjórnvöld eru óraveg frá því að uppfylla markmið hennar. 

Í nýlegri skýrslu Vegagerðarinnar er því lýst hvernig bílaleigubílanotkun erlendra ferðamanna hefur sexfaldast frá árinu 2009. Vetrarumferðin hefur tólffaldast. Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu segir stofnunina hafa orðið verulega vara við þessa aukningu. 

„Hingað hefur streymt ferðafólk frá öllum heimshornum, þar sem aksturs- og umferðarmenning er kannski með býsna ólíkum hætti en hér gerist."

Bílaleigubílarnir eru betri fyrir slitlagið - en háttalag ökumanna ógnar öryggi

Umferð hefur aukist heilt yfir og aukinni umferð fylgir aukið álag á vegakerfið. Vegirnir í kringum helstu ferðamannastaði á Suðurlandsundirlendinu; Gullfoss, Geysi og Þingvelli, eru farnir að slitna talsvert að sögn Óskars Arnar Jónssonar, sérfræðings hjá Vegagerðinni. Það munar þó ekkert sérstaklega um litla bílaleigubíla. Það kemur slitlaginu vel að svo margir ferðamenn skuli kjósa að ferðast á eigin vegum í stað þess að fara með rútum. Álagið sem einn hópferðarbíll veldur er á við álag af völdum 10 þúsund fólksbíla. Hópferðarbílum hefur þó fjölgað líka. Í fyrra voru nýskráðar 235 nýjar hópferðabifreiðar, ríflega tvöfalt fleiri en árið 2015. Vegagerðin fékk á þessu ári viðbótarfjárveitingu til þess að ráðast í viðgerðir á slitlagi, það er vel að sögn Óskars. Fjölgun ferðamanna á bílaleigubílum kallar þó einnig á framkvæmdir að hans sögn, það þurfi að fjölga útskotum verulega til að tryggja öryggi ferðamanna. Þeir stöðvi bílana hvar sem er, oft á miðjum vegi, slökkvi jafnvel ljósin til þess að sjá norðurljósin betur. 

„Við erum að reyna að kortleggja þessa þörf en auðvitað kallar þetta á aukið fjármagn og kostnaður við svona minnstu útskot er á bilinu þrjár til fimm milljónir."

Hann segir að gott væri ef fjárveitingar vegna aðgerða sem þarf að ráðast í vegna ferðamanna væru sérmerktar á fjárlögum. 

Skyndiþjálfun við afhendingu? 

Það er reyndar ekki víst að útskot dugi til að leysa þennan hegðunarvanda. Óskar segir að oft stöðvi ferðamenn á miðjum vegi þó það sé stutt í næsta útskot. Hann veltir því fyrir sér hvort veita ætti ferðamönnum einhvers konar skyndiþjálfun við afhendingu bílaleigubíla. 

Yfir þúsund slysa aukning á fjögurra ára tímabili

Umferðarslysum hefur fjölgað síðastliðin fjögur ár og sérstaklega síðastliðin tvö ár. Árið 2012 urðu rúmlega 5500 slys eða óhöpp í umferðinni. Árið 2016 voru þau tæplega 6800.

„Umferðaröryggisáætlun er hluti af samgönguáætlun og í markmiðum hennar var miðað við ákveðna mælikvarða þar sem var gerð áætlun um fækkun slysa, til dæmis vegna ölvunar og fíkniefnaneyslu eða ferðamanna. Þetta voru samtals ellefu markmið og eins og staðan er núna eru níu þeirra á rauðu."

Segir Þórhildur. Markmiðið um að fækka umferðarslysum ferðamanna er það sem verst gengur að uppfylla. Í fyrra var stefnt að því að innan við 127 erlendir ökumenn slösuðust í umferðinni en raunin varð sú að 338 slösuðust.

„Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að aukningin er hlutfallslega lægri en nemur fjölgun ferðafólks hingað til lands. Hins vegar hefur alvarlega slösuðum ferðamönnum fjölgað meira en sem nemur fjölgun ferðamanna hingað." 

Kínverskir ferðamenn slasast oftast

Í skýrslu Vegagerðarinnar kemur fram að 83% þeirra ferðamanna sem leigðu bíl hér í fyrra telja sig vera reynda ökumenn. Þórhildur segir að þeir geti vel verið það en þeir ofmeti hugsanlega færni sína í að aka við íslenskar aðstæður. Hún segir að það séu helst kínverskir ferðamenn sem slasist í umferðinni. Samgöngustofa hefur vegna þess lagt sérstaka áherslu á að fræða kínverska ferðamenn frá árinu 2015. 

„Við létum þýða áróðurs- eða fræðslubæklinga um akstur á Íslandi á kínversku og þessum bæklingum er dreift í gegnum kínverska sendiráðið á Íslandi til ferðaþjónustuaðila sem eru að selja ferðir til Íslands í Kína. Fólk sem sækir um vegabréfsáritun til Íslands í íslenska sendiráðinu í Kína fær þennan bækling með sér og á skrifstofu þeirra er látið rúlla myndband sem kennir fólki á kínversku að keyra á Íslandi." 

Hún segir aðgerðina hafa skilað árangri, hlutfallslega færri Kínverjar hafi slasast árið 2016 en árið 2015. 

Fáir hlusta á boðskap álfsins Elfisar

Ferðamenn sem leigja bíl hér á landi komast varla hjá því að sjá stýrisspjöldin, sem eiga að vera í öllum bílaleigubílum. Þeir geta víða sótt sér viðbótarupplýsingar um aksturskilyrði á Íslandi og helstu öryggisatriði. Á vef Vegagerðarinnar road.is, á vef Samgöngustofu, drive.is og á safetravel.is sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur umsjón með. Þeir gera þó afar lítið af því. Könnun Vegagerðarinnar leiddi í ljós að einungis fjórðungur þeirra sem leigðu bíl í fyrra hafði heyrt af Safe travel, 14% vissu af vef Vegagerðarinnar. Enn færri nýta sér síðurnar. Boðskapur álfsins Elfis nær því ekki til margra: 

Mikið um utanvegaakstur

Í skýrslu vegagerðarinnar kemur fram að 41% þeirra ferðamanna sem tóku bíl á leigu í fyrra hafi ekið utan vegar. Fimm prósent sögðust hafa gert mikið af því.

„Þetta er náttúrulega afleitt, bara eitt dæmi um þá þörf sem er fyrir hendi, að uppfræða fólk."

Ráðherra ferðamála og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar undirrituðu í gær samning við Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Félagið fær á næstu þremur árum hundrað milljóna framlag til þess að efla fræðsluverkefnið Safe travel. Samningurinn kveður meðal annars á um að fræðsluefni um akstur á Íslandi verði þýtt á kínversku og birt á vefsíðu verkefnisins. Þórhildur fagnar þessum samningi en segir að meira þurfi að koma til. Það þurfi bæði aukið fé og aukið samstarf milli þeirra sem komi að því að fræða ferðamenn. 

Segir Umferðaröryggisáætlun hafa verið aðþrengda

Hún segir að fræðslustarfsemi Samgöngustofu hafi undanfarið kostað útsjónarsemi þar sem fjármagn til umferðaröryggisáætlunar hafi verið af mjög skornum skammti. Í fyrra hafi ríkið ekki varið krónu til umferðaröryggisáætlunar. Árið 2015 hafi Samgöngustofa fengið 20 milljónir til að vinna að markmiðum áætlunarinnar, ekki beint úr ríkissjóði heldur frá Vegagerðinni. Í ár er staðan skárri, stjórnvöld vörðu 75 milljónum til áætlunarinnar. Á árinu verður ráðist í tvö forgangsverkefni, annað lýtur að erlendum ferðamönnum, hitt að snjalltækjanotkun ökumanna. En telur Þórhildur að fjármagnsskortur síðastliðinna ára hafi grafið undan öryggi ferðamanna? 

„Það er auðvitað samhengi á milli þeirrar athygli fjárveitingarvaldsins sem beint er að ákveðnum málum og þess árangurs sem að næst. Á síðasta ári hefur verið reiknað út að umferðarslys á Íslandi kostuðu sextíu milljarða króna. Með frekar litlu framlagi má ná gríðarlegum árangri. Það þarf í rauninni að hugsa þetta út frá þeim árangri sem við ætlum að ná og því öryggisstigi sem við ætlum að sjá hérna í umferðinni á Íslandi. Það er alltaf að koma nýtt fólk. Þetta fólk sem við erum að uppfræða er kannski bara að koma í eitt skipti. Þetta er ný áskorun á hverjum einasta degi."

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi