Niðurstaða fengin í „apasjálfu“-málið

Dóms- og lögreglumál
 · 
Erlent
 · 
Höfundarréttur
 · 
Menningarefni
epa05214905 Museum manager Stefanie Dathe holds a photograph of a monkey taking a selfie, that caused a discussion about copyrights, at the Museum Villa Rot in Burgrieden, Germany, 16 March 2016. The exhibition 'Me, Myself and I - Selbstdarstellung
Apasjálfurnar voru til sýnis á sýningunni Me, myself and I, á Villa Rot listasafninu í Þýskalandi.  Mynd: EPA  -  DPA

Niðurstaða fengin í „apasjálfu“-málið

Dóms- og lögreglumál
 · 
Erlent
 · 
Höfundarréttur
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
13.09.2017 - 15:58.Davíð Roach Gunnarsson
Eftir áralangar deilur fyrir dómstólum hefur náttúrlífsljósmyndarinn David Slater komist að samkomulagi við dýraverndunarsamtökin PETA. Hann er nú skráður rétthafi að sjálfsmyndum sem makakí-apinn Naruto tók árið 2011.

Frá þessu er greint á BBC. Forsaga málsins er sú að náttúrulífsljósmyndarinn David Slater myndaði makakí-apa á eynni Sulawesi í Indónesíu árið 2011 og þá vildi svo til að api sem nefnist Naruto smellti af nokkrum sjálfsmyndum.

Taldi sig verða af miklum  tekjum

Myndirnar fóru fyrst í almenna dreifingu 2014. Wikipedia og fleiri miðlar töldu að ekki þyrfti að greiða fyrir notkun þeirra þar sem manneskja hefði ekki tekið þær. Slater hélt því hins vegar fram að hann hefði lagt grunnvinnuna að myndum apans, varið miklum tíma í návist apanna svo þeir yrðu ekki hræddir við myndavélina, komið henni fyrir á þrífæti sem auðveldaði Naruto að athafna sig, og stillt birtustig og fókus á myndavélainni.

Slater taldi sig hafa orðið fyrir miklum tekjumissi vegna ólöglegrar dreifingar á myndunum og höfðaði mál fyrir bandarískum dómstólum. Fyrir dómi var því hafnað að Slater væri rétthafi myndanna því að apinn hefði tekið þær. Hann áfrýjaði málinu og var dæmdur höfundarrétturinn á æðra dómsstigi.

Tímamótamál varðandi réttindi dýra

Þá höfðuðu dýraverndunarsamtökin PETA mál á hendur Slater fyrir hönd apans þar sem þau töldu að tekjur af myndunum ættu að renna til þess sem tók þær; apans Narutos.  Mimi Bekhechi, talsmaður PETA, sagði að þetta mál markaði tímamót. „Ef sigur fæst verður dýr í fyrsta sinn eigandi að einhverju í stað þess að vera sjálft eign einhvers.“ Raunar varð kyn apans að deiluefni í réttarhöldunum þar sem fulltrúar PETA sögðu að apinn sem smellti af myndunum væri kvenkyns og héti Naruto, en Slater hélt því fram að það hefði verið annar karlapi. 

Nú hafa Slater og PETA komist að samkomulagi og gefið út yfirlýsingu þar sem Slater heitir því að úthluta fjórðungi allra tekna sem hann fær af sjálfsmyndunum til samtaka sem eru tileinkuð varðveislu kjörlendis makakí-apa í Indónesíu. Sjálfsmyndirnar eru enn á síðu Wikimedia Commons sem virðist ekki hafa tekið þær út þrátt fyrir úrskurðinn.

Tengdar fréttir

Erlent

Apinn rétthafi myndarinnar