Róttækra félagslegra, pólitískra, efnahagslegra og menningarlegra breytinga er þörf að mati kanadíska höfundarins Naomi Klein. Horfast verði í augu við að loftslagsbreytingar séu ekki álitamál – heldur lokaviðvörun til siðmenningarinnar.

Naomi Klein er kanadískur höfundur, þekkt fyrir bækurnar No Logo og Shock Doctrine sem fjölluðu um vörumerkjavæðingu heimsins og hamfarakapítalisma. Í sinni nýjustu bók tekst hún á við samspil kapítalisma og loftslagsbreytinga. Bókin heitir Þetta breytir öllu – kapítalisminn gegn loftslaginu og vakti mikið umtal þegar hún kom út 2014. Hún er nú komin út á íslensku í þýðingu Jóhannesar Ólafssonar.

Undirtitillinn er það fyrsta sem slær lesandann – „kapítalisminn gegn loftslaginu“. Naomi Klein sér ekki fram á að viðbrögð við loftslagsbreytingum í kapítalísku heimsskipulagi gangi upp og því sé þörf á róttækri hugarfarsbreytingu. „Hún setur þetta upp sem afarkost,“ segir Jóhannes. „Annars vegar breytir kapítalisminn öllu þannig að neyslan okkar mun breyta loftslaginu ef við höldum svona áfram, eða þá að við breytum kerfinu og gefum okkur þar af leiðandi aðeins meiri tíma á jörðinni sem mannkyn.“

Naomi Klein horfir á stóru kerfin, hvernig samspil fjármagns og stjórnmála hefur áhrif á loftslagsmál. Stjórnmálamenn eiga bágt með að draga úr þeim lífskjörum sem við höfum nú þegar, segir Jóhannes, enda yrði flokkur sem ætlaði að berjast fyrir því að draga úr hagvexti mjög hratt og örugglega kosinn af þingi.

En hvernig geturðu verið með endalausan hagvöxt í takmörkuðu rými, spyr hann. „Það er í raun þversögn. Það er hugmynd sem gengur ekki upp. Samt eru heilu háskóladeildirnar og hugveiturnar sem velta þessu fyrir sér og berjast fyrir því að þetta sé eina hugmyndin. Við þurfum bara að draga úr losun.“ Hann segir að það sé þörf á tæknilegum lausnum en það mikilvægasta sé að knýja fram hugarfarsbreytingu. 

„Neyslan er vandamálið. Við erum búin að ala upp kynslóðir af fólki sem finnst ekkert eðlilegra en að geta flogið þvert yfir hnöttinn og geta keypt hvað sem er hvenær sem er hvar sem er,“ segir Jóhannes. „Lausnin verður að koma frá fólkinu, það er það sem Klein talar um í síðasta hluta bókarinnar. Hún sér vonarneista í samstarfi frumbyggja, fátækra og þeirra sem verða hvað mest fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga en lögðu hvað minnst á vogarskálarnar þannig að loftslagsbreytingar yrðu.“

Naomi Klein talar um að vandinn verði ekki leystur nema með átökum. „Það eru í raun átök um að reyna að koma á annars konar þjóðskipulagi, sem tekur mið af hagsmunum fólksins alla leið. Þar sem það er ekki bara verið að nýta auðlindir til hins ítrasta heldur búa til hringlaga hagkerfi sem getur fúnkerað á sjálfbæran hátt,“ segir Jóhannes.

Hann vonast til að þýðingin geti vakið Íslendinga til umhugsunar um loftslagsmál í alþjóðlegu samhengi. „Við erum oft að tala um votlendið okkar, bráðnun jökla – en setjum það ekki alltaf í alþjóðlegt samhengi. Það er það sem að þessi bók vonandi skilar, að fólk átti sig á að þetta er vandamál hagkerfisins í heild, allt neysluhagkerfið okkar eins og við sjáum það í dag. Það ætti kannski að vekja fólk til umhugsunar um að breyta sínum lífsstíl - sjá hlutina í stærra samhengi.“