Þriggja hæða samstæða úr gámum verður sett upp á lóð Landspítalans í vetur og notuð sem skrifstofuhúsnæði fyrir lækna. Framkvæmdastjóri hjá spítalanum segir þetta vera neyðarráðstöfun.
Settir verða upp 18 gámar til bráðabirgða, baka til á lóð Landspítalans við Hringbraut. Þeim verður staflað upp í þriggja hæða samstæðu og verða innréttaðir sem skrifstofur fyrir sérfræðilækna, alls um 500 fermetar. Nú stendur yfir útboðsferli á vegum Ríkiskaupa, kostnaðurinn við gámana er um 115 milljónir og er stefnt að því að þeir verði teknir í notkun í desember.
„Þetta er þangað til við fáum nýtt húsnæði, þar til tekst að fjármagna og byggja nýjan meðferðarkjarna, þá verðum við að fara þessa leið,“ segir Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs LSH. „Þetta er engin óskastaða og við vildum að til þess kæmi ekki, það væri hægt að nota þessa peninga skynsamlega til að byggja varanlega aðstöðu, en við verðum bara að fara þessa leið. Neyðin er það mikil innandyra hjá okkur.“
Í nýrri skýrslu Landlæknisembættisins um lyflækningasvið Landspítalans, koma fram margvíslegar ábendingar um brýnar úrbætur á húsnæðinu. „Í skýrslunni er fjallað um hversu erfiðlega gengur að fá unga vel menntaða sérfræðinga til starfa. Ítrekað kemur fram að gera þurfi starfsaðstöðu fyrir starfsfólk aðlaðandi og eftirsóknarverða.“ Fyrst og fremst snúist þetta um að bæta aðstöðu til að geta þjónað sjúklingum inni í byggingunum með því að flytja skrifstofur út í gáma. „En þetta alls ekki sú framtíðarlausn sem við sjáum, langt frá því,“ bætir hann við.