Erla Skúladóttir leikkona og kvikmyndagerðarkona hefur búið í New York í 30 ár og haslað sér völl þar í kvikmyndagerð sem og hér á landi. Erla er ein af handritshöfundum að nýrri sjónvarpsþáttaröð sem fer í loftið í haust og vinnur einnig við þýðingar og prófarkalestur, sem hún segir nauðsynlegt til að halda íslenskunni vel við.
Erla segir að lífið í New York borg sé ákaflega gott, þau hjónin hafi stundum hugsað um að flytja eitthvert annað því borgin sé dýr en svo margir aðrir hlutir vegi uppá móti og þau komast alltaf að sömu niðurstöðu um hvergi sé betra að búa. Þegar Erla flutti til borgarinnar fyrir 30 árum var hún oft hrædd við að vera ein á gangi á kvöldin og verið ráðlagt að vera ekki ein á ferli eftir kl.21.00, en í dag er þetta mikið breytt. Borgin sé orðin mjög örugg og nánast kraftaverki líkast hvað það er mikill viðsnúningur frá því sem var.
Mannlegi þátturinn á Rás 1 hitti Erlu á kaffihúsi á Manhattan í New York og spurði út í verkefnin og einnig útí lífið í stórborginni.