Nemendur úr Salaskóla hringdu inn fjármálalæsisviku sem hefst í dag þegar þeir hringdu klukkunni í Kauphöll Íslands. Fjármálalæsisvikan er hluti af alþjóðlegu átaki til að vekja athygli á fjármálalæsi og stuðla að viðhorfsbreytingu þegar kemur að fjármálum.
Magnús Garðar Geirlaugsson, 8. bekk Salaskóla, og Hilmar Hafsteinn Dagbjartsson, 9. bekk Salaskóla, hringdu inn vikuna í Kauphöllinni. Þeir sögðust ekki hafa hugsað mikið út í fjármálalæsi en kváðust áhugasamir um að vita meira um það. Báðir safna þeir fyrir því sem þá langar í.
Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segir börn og ungmenni orðin þátttakendur í efnahagslífinu miklu fyrr en áður. „Bæði safna þau skuldum jafnvel mjög snemma á ævinni og taka ákvarðanir sem þau kannski skilja ekki fyllilega,“ segir Breki og kveður það geta haft áhrif út allt lífið. „Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að ef þú hefur safnað skuldum kringum tvítugt sem nema sex mánaða tekjum þá kemstu aldrei út úr þeim vítahring sem þær skuldir eru.“