Neitar að hafa beðið Comey að hætta rannsókn

17.05.2017 - 01:21
epa05968277 US President Donald J. Trump listens to remarks from President of Turkey Recep Tayyip Erdogan (not pictured) during a joint statement in the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, USA, 16 May 2017. Trump and Erdogan face the
 Mynd: EPA  -  EPA POOL
Donald Trump vísar öllum fullyrðingum um að hann hafi reynt að fá James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, til að fella niður rannsókn á samskiptum fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa við rússneska erindreka. Yfirlýsing þessa efnis var send út skömmu eftir að frétt New York Times um tilraun forsetans til að hafa áhrif á rannsóknina birtist á vefsíðu blaðsins.

Í frétt NYT segir að Trump hafi farið þess á leit við Comey að hann sæi til þess að FBI hætti rannsókn á Flynn og samskiptum hans við sendiherra Rússa og fleiri rússneska erindreka í aðdraganda embættistöku Trumps. Fullyrt er að þetta komi fram á minnisblaði sem Comey ritaði eftir fund hans með forsetanum í febrúar síðastliðnum. Þremur mánuðum síðar rak Trump Comey.

„Hvorki sönn né rétt lýsing“

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu er þessu vísað algjörlega á bug og fullyrt að forsetinn hafi aldrei beðið Comey eða nokkurn annan að binda enda á nokkra rannsókn. Það gildi líka um rannsóknina á framferði Mikes Flynn. „Þetta er hvorki sönn né rétt lýsing á samtalinu milli forsetans og herra Comey," segir í yfirlýsingunni.

Mike Flynn var vikið úr starfi þjóðaröryggisráðgjafa forsetans eftir að upp komst að hann hafði rætt efnahagslegar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna við Rússa áður en Trump tók við embætti og svo sagt ósatt um þau samskipti sín við sendiherra Rússlands, Sergey Kislyak.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV