Starfsgreinasambandið ætlar ekki að taka þátt í því að skerða kjör fólks í hlutastörfum og fólks sem vinnur utan dagvinnutíma, sagði Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að kröfur Samtaka atvinnulífsins væru þannig að ekki væri hægt að ganga að þeim: Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði að atvinnurekendur reyndu með hugmyndum sínum að koma til móts við kröfu fólks um styttri vinnutíma.
Kjarasamningar voru til umræðu í Kastljósinu eftir að slitnaði upp úr viðræðum Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Í upphafi þáttar var fjallað um hugmyndir SA um breytingar á vinnutíma og álagsgreiðslum. Samkvæmt því vill SA lækka álag á yfirvinnukaup fólks í hlutastarfi. Nú er álagið um 80 prósent ofan á dagvinnulaun en hér eftir fengi fólk í hlutastarfi aðeins 40 prósenta yfirvinnuálag þangað til heildartímafjöldi þess fyllti fulla dagvinnu. Hugmyndin er sú að færa álagsgreiðslur inn í dagvinnulaun.
Flosi sagði að þetta kæmi ekki til greina. „Við munum ekki taka þátt í því að ganga frá kjarasamningi eða samþykkja hugmyndir sem leiða til þess að hluti af okkar fólki; fólk í hlutastörfum, fólk sem vinnur á kvöldin, vinnur um helgar, er kannski að aðstoða fólk í ferðaþjónustu, þetta eru mikið konur, þetta er skólafólk, þetta er lægst launaði hópurinn okkar. Við ætlum ekki að skerða þeirra kjör. Það kemur ekki til greina,“ sagði Flosi. „Auðvitað strandar á því.“
Guðrún sagði SA svara kalli almennings um breytingar á vinnutíma. Íslendingar vilji færa sig nær norrænu ríkjunum og vinna minna. „Við höfum lagt áherslu á það að við erum að lengja dagvinnutímann en við ætlum ekki að lengja vinnutíma einstaklinga. Við höfum átt í miklum samræmum um að auka sveigjanleika innan þessa tímabils. Ég held að það sé það sem fjölskyldufólk kallar eftir,“ sagði Guðrún. Nú þegar þekkist sveigjanlegur vinnutími á skrifstofum en stór hópur launþega á ekki þetta val, sagði hún.
Flosi sagði Starfsgreinasambandið reiðubúið að ræða sveigjanleika á vinnumarkaði en það mætti ekki vera á kostnað þeirra sem vinna hlutastörf eða eru í vinnunni á kvöldin eða öðrum þeim tíma þar sem aðrir eru heima hjá fjölskyldum sínum.
Guðrún og Flosi lýstu bæði vonbrigðum með að slitnað hefði upp úr samningaviðræðum.
Flosi sagðist frekar sjá fyrir sér að aðildarfélög Starfsgreinasambandsins myndu boða til allsherjarverkfalla heldur en að afmarkaðir hópar færu í verkfall. Guðrún sagði að það græddi enginn á verkföllum heldur töpuðu allir á þeim.