Ef dýrin fara, förum við. Þetta segja íbúar í blokk Öryrkjabandalagsins sem þurfa annaðhvort að losa sig við gæludýrin sín eða missa húsnæðið. Hússjóður ÖBÍ krefst þess að bann við dýrahaldi sé virt.
Gæludýrahald hefur alltaf verið bannað í íbúðum Öryrkjabandalagsins, en því hefur ekki verið framfylgt af hörku. Hússjóður ÖBÍ, Brynja, áréttaði reglurnar í vor vegna kvartana, og tilkynnti íbúunum að þeir þyrftu að losa sig við dýrin fyrir 15. maí, annars yrði húsaleigusamningi þeirra rift.
Grét í tvo daga eftir bréfið
Sigurveig Buch, sem á köttinn Kristófer Buch, segist hafa fengið sjokk þegar hún fékk bréfið.
„Mér leið alveg hræðilega. Ég grét í tvo daga eftir að ég fékk þetta bréf. Og mér fannst þetta svo ósanngjarnt og mér fannst þetta vera svo mikil hótun gagnvart litla manninum," segir hún. „Og að þetta skildi koma frá Öryrkjabandalaginu. Sem á að vera skjólstæðingur okkar. Ég bíð þá bara eftir því að þeir beri mig út sko. En ég stend og fell með kettinum."
Hún bendir á að margir öryrkjar séu einmana og berjist við þunglyndi. Og þá sé ekkert betra en að eiga hund eða kött.
Friðrik Þór Andreassen heldur líka kött í blokkinni. Hann segist ekki trúa öðru en að Brynja falli frá áformum sínum.
„Öll þessi umræða sem hefur orðið út frá þessu hlýtur að verða til þess að þetta fari á einhvern annan veg heldur en var ætlast til í fyrstu," segir hann. „Það kemur ekki til greina að ég losi mig við köttinn minn. Ég tek það ekki í mál."
Getur ekki hugsað sér lífið án Birtu
Hulda Magnúsdóttir er búin að eiga Birtu í fjögur ár, frá því að hún var fimm mánaða kettlingur.
„Ég er svo mikið líkamlega fötluð að ef ég bíð eftir hjálp og kemst ekki fram úr, þá kemur hún og verður hjá mér. Þangað til að hjálp berst til að hjálpa mér á fætur," segir Hulda. Hún segist ekki getað hugsað sér lífið án Birtu.
„Mér líður illa og ég er svolítið tæp á geði. Og þá mundi ég fara algjörlega niður á við."
Hundurinn leiddi hana heim
Edda Kristveig Indriðadóttir er flogaveik. Fyrir nokkrum dögum fékk hún ráðvilluflog fyrir utan heimili sitt og missti allt skyn. Hún þekkti þó hundinn sinn, Loppu, og sagði henni að fara heim.
„Þannig að ég gat elt hana heim og þannig komst ég heim. Annars hefði ég bara verið þarna einhvers staðar á ráfi hérna úti," segir hún. „Ég losa mig aldrei við hundinn. Ég er ekki að fara að láta hana frá mér."
Nær allir íbúar styðja dýrahald
32 af 34 íbúum hafa skrifað undir lista sem gefur leyfi fyrir dýrahaldi. Framkvæmdastjóri hússjóðsins sagði í hádegisfréttum að reglurnar tíðkuðust líka hjá öðrum leigufélögum. Til stendur að funda um þá stöðu sem upp er komin, en gæludýraeigendurnir í húsinu standa fast á sinni skoðun.