Neikvæð umsögn Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða Hvammsvirkjun í Þjórsá breytir engu um áform um virkjunina. Þetta segir forstjóri Landsvirkunar. Oddviti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur í sama streng.

Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvammsvirkjunar í Þjórsá á landslag verði verulega neikvæð. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu, vegna þeirra breytinga sem muni verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu. Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum fyrirhugaðarar virkjunar. 

„Það kemur ekki mikið á óvart,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Það var verið að skoða tvo afmarkaða þætti - áhrif á landslag og ásýnd og síðan á ferðaþjónustu. Svona stórar framkvæmdir hafa alltaf mikil áhrif á landslag og ásýnd, það er óhjákvæmilegt.“

Setur þetta eitthvert strik í reikning ykkar áforma?

„Nei. Nú er bara umhverfismatinu lokið og í skýrslunni er bent á mikilvægi mótvægisaðgerða sem við höfum líka tekið fram. Og við munum bara fara vel yfir þessar ábendingar og reyna að koma til móts við þær eins og mögulegt er.“

Það segir þarna að virkjunin muni hafa veruleg neikvæð áhrif á landslagið. Er það ekki eitthvað sem þið verðið að horfa til?

„Jú, en eins og ég segi, þá er það bara óhjákvæmilegt. Svona stórar virkjunarframkvæmdir breyta alltaf verulega landslaginu en við höfum möguleika á ýmsum mótvægisaðgerðum og munum bara vanda okkur eins og mögulegt er að gera þær þannig að áhrifin verði eins lítil og mögulegt er. En það er óhjákvæmilegt að þau verða mikil, það er bara eðli svona framkvæmda.“

En í öllu falli, þá verður af Hvammsvirkjun?

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um hvenær við gerum það, en ég tel allar líkur á að það verði já,“ segir Hörður.

„Hverju á að fórna?“

Framkvæmdin er háð ýmsum leyfum, meðal annars framkvæmda- og byggingarleyfi frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti sveitarstjórnarinnar, segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar komi ekki á óvart, og að hún stöðvi ekki fyrirhugaðar framkvæmdir enda sé virkjunin í nýtingarflokki rammaáætlunar.

„Þetta er búið að vera í miklu ferli í langan tíma og við höfum ekki búist við öðru en að þessi niðurstaða kæmi. Að það væru athugasemdir en samt hleypt í gegn. Það hefur verið mjótt á mununum með þetta.“

Skipulagsstofnun segir að Hvammsvirkjun muni hafa veruleg áhrif á landslag þarna - ætlið þið að bregðast við því?

„Við bregðumst við því eins og við höfum gert, að halda áfram að hamast í þeim að bæta virkjunina. Og það hefur mikið verið gert í því frá fyrstu teikningum. En það gera sér allir grein fyrir því að þetta er inngrip í náttúruna. Og verður mikið rask. En það er alltaf þetta: Hverju á að fórna, hvenær og til hvers?“ segir Björgvin.