Forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem skal meta lögmæti kaupa fyrirtækisins Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku og starfsumhverfi orkugeirans hér á landi. Nefndina skipa: Hjördís Hákonardóttir, fyrrv. hæstaréttardómari, sem er formaður, Bjarnveig Eiríksdóttir, hdl og LL.M í Evrópurétti og alþjóðaviðskiptarétti, Sveinn Margeirsson, dr. í iðnaðarverkfræði, Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands og Aagot Óskarsdóttir, lögfræðingur. Nefndinni til ráðgjafar verður Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, og nefndin mun jafnframt leita til fleiri sérfræðinga við vinnslu afmarkaðra þátta.

Vinnu nefndarinnar verður hagað með eftirfarandi hætti:

Nefndin mun vinna sjálfstæða úttekt á kaupum Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku í gegnum dótturfélag í Svíþjóð og meta lögmæti þeirra.

Nefndin skal gefa rökstutt álit á því hvort kaup Magma Energy á eignarhlut í orkufyrirtækinu HS Orku í gegnum dótturfélag í Svíþjóð séu samrýmanleg íslenskum lögum og reglum EES-samningsins.

Nefndin skal meta hvort máli skipti í því samhengi hvort hið sænska dótturfélag hafi með höndum eiginlega starfsemi, hvort kaupandi sé kanadískur eða sænskur og hvaða hlutverki hið kanadíska móðurfélag gegnir í því að annast eða ábyrgjast greiðslur vegna viðskiptanna og í starfsemi og umsvifum félagsins hér á landi.

Jafnframt skal nefndin kanna til hlítar hvort kaup Magma Energy á HS Orku standist meginreglur og markmið íslenskra laga um auðlindir og orkunýtingu og sérstaklega skal meta ákvæði EES-samningsins hvað ofangreinda þætti varðar.

Nefndin skal, á grundvelli þess sem að ofan segir, láta í ljós álit sitt á því hvort forsendur kunni að vera fyrir stjórnvöld til að leita leiða til að grípa inn í umrædd viðskipti Magma Energy með hlut í HS Orku.

Nefndin skal enn fremur greina og meta hvaða leiðir séu einkum færar í því sambandi, reifa hverjir eru helstu kostir og gallar hverrar leiðar og áætla líklegan kostnað við hverja leið. Loks skal nefndin meta hvaða aðrar leiðir eru færar til að tryggja að nýting þeirra auðlinda sem málið varðar sé í almannaþágu og í samræmi við stefnu í umhverfismálum.

Nefndin skal jafnframt fjalla um viðameiri rannsóknir á einkavæðingu innan orkugeirans og starfsumhverfi hans.

Í vinnu við þennan þátt skal tekið mið af yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 27. júlí 2010. Markmið með slíkri rannsókn er að fyrir liggi heildstæð úttekt á einkavæðingu í orkugeiranum, hagsmunatengslum, samskiptum hagsmunaaðila og þróun lagaumhverfis þannig að bæta megi starfsumhverfi orkugeirans hér á landi til framtíðar litið, m.a. í ljósi reynslunnar.

Sveinn Margeirsson, dr. í iðnaðarverkfræði, mun stýra þessum þætti í vinnu nefndarinnar.

Auk þessarar nefndar ákvað ríkisstjórnin samkvæmt yfirlýsingunni 27. júlí að skipaður verði starfshópur sjö manna
sem undirbúi lagafrumvarp, er tryggi opinbert eignarhald á mikilvægum orkufyrirtækjum og takmarki eignarhald einkaaðila. Starfshópurinn taki m.a. mið af niðurstöðum þeirrar nefndar, sem nú hefur verið skipuð.  Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir októberlok.