Önnur þáttaröð Fleabag kemst nálægt því að vera fullkomið sjónvarpsefni að mati sjónvarpsrýnis Lestarinnar. Hún pakki inn mörgum lögum af persónusköpun, tilfinningalegum og heimspekilegum pælingum og bröndurum í aðeins sex hálftíma langa þætti.


Áslaug Torfadóttir skrifar:

Phoebe Waller-Bridge er nafn sem sjónvarpsunnendur eru farnir að heyra í síauknum mæli, enda hefur hún vakið verðskuldaða athygli fyrir framlag sitt alveg síðan að hún braust fyrst fram á sjónarsviðið með fyrstu þáttaröð af ljúfsáru gamanþáttunum Fleabag árið 2016 sem hún bæði skrifar og leikur aðalhlutverkið í. Ferskur húmor, berstrípuð hreinskilni og heiðarleg skoðun á mannlegri hegðun urðu til þess að þættirnir voru umsvifalaust hylltir af bæði gagnrýnendum og áhorfendum sem einhverjir þeir bestu sem hafa nokkurn tíma komið fram í bresku sjónvarpi. Waller-Bridge sýndi það svo með næsta verkefni sínu, spennuþáttunum Killing Eve, að Fleabag voru langt frá því að vera einhver byrjendaheppni heldur hefur hún ótvíræða hæfileika og er ein mest spennandi rödd sem komið hefur fram lengi. Og nú er hún mætt aftur með aðra þáttaröð af Fleabag, sem jafnframt verður sú  síðasta, og hefur það erfiða verkefni fyrir höndum að viðhalda orðspori sínu og standa undir gríðarlegum væntingum áhorfenda.

Waller-Bridge útskrifaðist úr hinum virta leiklistarskóla Royal Academy of Dramatic Arts en átti eins og margir ungir leikarar erfitt með að fá hlutverk. Eftir áskorun frá vinkonu sinni prófaði hún að taka þátt í tilraunakvöldi þar sem leikarar fluttu stutta texta sem skrifaðir voru gagngert til þess að ögra áhorfendum og reyna að kalla fram viðbrögð hjá þeim. Waller-Bridge skrifaði tíu mínútna einræðu um stelpu sem viðurkennir fyrir kærasta sínum að hafa sofið hjá öðrum manni og þó að hún elski hann ennþá þá geti hún ekki verið honum trú, enda dreymi allar konur um að sofa stundum hjá betur vöxnum mönnum en maka sínum. Hún segir að það hafi komið sér á óvart hversu sterk viðbrögð hún fékk frá áhorfendum, og þá sérstaklega karlmönnum sem jusu yfir hana fúkyrðum, en að tilfinningin sem hún upplifði við það að standa á sviði og segja sannleikann, eða sinn sannleika allavega, hafi verið einstök og opnað fyrir henni nýjan heim.

Hún hélt áfram að skrifa og til varð einleikurinn Fleabag sem hún frumsýndi á Edinborgarhátíðinni árið 2013. Fleabag vann til verðlauna og vakti athygli framleiðanda frá BBC sem bauð henni að aðlaga leikritið fyrir sjónvarp.Fleabag segja frá ungri konu í London sem er aldrei nefnd með nafni og verður því hér bara kölluð Fleabag. Hún kemur úr efri-millistéttar fjölskyldu og starfrækir eigið kaffihús en á engu að síður erfitt með að fóta sig í lífinu, sérstaklega eftir dauða móður sinnar og seinna bestu vinkonu. Sú Fleabag sem við hittum fyrir í fyrstu þáttaröð kann engan veginn að höndla tilfinningar og reynir að deyfa sjálfa sig með áfengi, kaldhæðni og merkingarlausu kynlífi með hinum og þessum mönnum sem skipta hana engu máli. Samband hennar við fjölskylduna er stirt, en pabbi hennar hefur nýlega hafið samband við guðmóður hennar, sem er nú bókstaflega orðin vonda stjúpan úr ævintýrunum, og systir Fleabag er á yfirborðinu fullkomin, enda gift og farsæl í starfi sínu sem bissnesskona.

Líf Fleabag er í samanburði algjört klúður og í stað þess að horfast í augu við það og jafnvel biðja um hjálp reynir hún að bíta af sér sína nánustu með hispurslausri hegðun og særandi ummælum. Svo virðist sem Fleabag eigi engan að sem hún getur talað við en það er ekki rétt. Hún á okkur áhorfendur, en Fleabag brýtur reglulega fjórða vegginn til þess að tala beint við okkur sem sitjum hinum megin við skjáinn. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt, langar einræður Frank Underwood beint í myndavélina gáfu áhorfendum innsýn inn í ill áform hans í House of Cards og þættir eins og The Office og Parks and Recreation nota ósýnilega heimildamyndagerðamenn til þess að tala beint við áhorfendur. En Fleabag er ekki aðeins að útskýra fyrir okkur hvað er að gerast í sögunni, heldur talar hún við okkur eins og gamlan vin, oftar en ekki bara með einsatkvæðisorðum eða augnatilliti, eins og við séum búin að vera partur af uppátækjum hennar lengi, skiljum alla einkabrandarana og höfum átt mörg trúnaðarsamtöl yfir of mörgum vínglösum um hvað fjölskylda hennar sé glötuð. Og það virkar.

Áhorfendum fer ekki aðeins að þykja vænt um þennan rugludall heldur verðum við þátttakendur i lífi hennar á sterkari hátt en ef við værum bara að fylgjast með. En Fleabag eru alls ekki grínþættir sem ganga bara útá það að ganga fram af áhorfendum með kynlífi og dónalegri aðalpersónu, af þeim er nóg, heldur sýna þeir okkur líka ástæðuna fyrir sjálfseyðingarhvöt Fleabag og í áhrifamiklum lokaþætti lætur hún grímuna loks falla og sýnir okkur hræddu stelpuna fyrir innan sem er svo yfirkomin af sorg og sektarkennd að hún getur varla andað.

Í seríu tvö hittum við Fleabag fyrir rúmu ári seinna og ýmislegt hefur breyst. Kaffihúsið gengur vel, hún hefur sett sjálfa sig í kynlífsbann og er að reyna að bæta fyrir skaðann sem hefur orðið á sambandi hennar við fjölskyldu sína, þó að kaldhæðnin sé aldrei langt undan enda engin fullkominn. Pabbi hennar og stjúpa eru að fara að giftast og hafa ráðið til þess prest. Hann er þó enginn venjulegur prestur heldur ungur maður sem bæði drekkur og blótar og á milli hans og Fleabag myndast samstundis sterk tenging sem á eftir að reyna á þau bæði. Fleabag er að reyna að verða betri manneskja en leiðin til bata er þyrnum stráð og því kannski ekki skrýtið að hún falli fyrir manni sem er eins ófáanlegur og hægt er, enda krefst það mjög lítils tilfinningalegs þroska að standast freistingu sem er ekki í boði. Eða hvað?

Fleabag hafa alltaf verið einstaklega góðir í því að sýna okkur gráu svæðin í lífinu, allar persónur eru flóknar og marghliða og presturinn er engin undantekning á því. Samleikur Waller-Bridge og Andrew Scott sem leikur prestinn er bæði látlaus og áreynslulaus og loftið á milli þeirra er gjörsamlega rafmagnað. Og aftur gerir hún okkur samsek, við vitum að auðvitað á hún ekki að reyna að tæla kaþólskan prest, en guð minn góður hann er bara með svo fallegan háls! Þegar Fleabag er ekki að reyna að fremja guðlast þá er hún að reyna að aðstoða systur sína Claire sem er alls ekki jafn fullkomin og hún virtist í fyrstu seríu. Claire er föst í óhamingjusömu hjónabandi en á erfitt með að losa sig undan fullkomnu ímyndinni og elta hjartað. Þær systur hafa því nokkurs konar hlutverkaskipti þar sem Fleabag reynir að vera sú skynsama og jarðbundna til þess að systir hennar fái loksins að njóta sín.

Önnur þáttaröð Fleabag kemst nálægt því að vera fullkomið sjónvarpsefni. Hún ekki aðeins toppar forvera sinn heldur tekst að pakka inn ótrúlega mörgum lögum af persónusköpun, tilfinningalegum og heimspekilegum pælingum og bröndurum í aðeins sex hálftíma langa þætti. Lokaþátturinn verður lengi í minnum hafður sem dæmi um það hvernig á að enda sjónvarpsseríu á hátt sem er bæði trúr persónunum og ferðalaginu sem áhorfendur hafa farið í með þeim. Fleabag segir okkur í fyrsta þætti að þetta sé ástarsaga og það er hún svo sannarlega, þó ekki í hefðbundnum skilningi. Þegar við skiljum við hana hefur Fleabag lært að standa á eigin fótum og þarf ekki lengur á hækjunni sinni, okkur, að halda og þó að við vinkum henni bless með söknuði þá vitum við að hún á eftir að spjara sig.