Sjón hefur sent frá sér nýja ljóðabók sem nefnist Gráspörvar og ígulker. Skáldið segir að á síðustu árum hafi ljóðlistargáfan helst verið nýtt í þágu samstarfsverkefna — en nýja ljóðabókin er ef til vill persónulegri en mörg fyrri verka hans. Sjón sagði frá henni í menningarþættinum Víðsjá á Rás 1.
Titill sem spannar allan heiminn
„Gráspörvar og ígulker, þetta eru smávinir fagrir sem veruleikinn færir okkur,“ segir Sjón aðpurður um titil bókarinnar, „og ljóðið er bara eins og einhver gráspörvi eða ígulker, en í titlinum er líka verið að reyna að skoða allt sem þar er á milli, það eru þessir litlu gráspörvar sem flögra um víða, og ígulkerin í hafinu, og svo er bara allur heimurinn á milli, þau standa vörð hvort á sínum stað.“
Aðspurður um uppruna verksins segir hann að bækurnar hans komi bæði innan úr honum og utanfrá. „Það er eitthvað samspil þar á milli, það sem er fyrir utan kallar á myndir og einhver viðbrögð, og stundum verða þau að ljóðum.“
Bókin varð til á síðustu tíu árum. „Það er þannig hjá mér að ljóð verða til af öllu öðru tilefni en því að mig langi til að skrifa ljóð, svo nokkur ljóða bókarinnar eru skrifuð af einhverju tilefni, ég er beðinn um að hugsa um eitthvað viðfangsefni eða ég er beðinn um að kommentera á myndlistarverk eða eitthvað slíkt, svo geri ég það og átta mig á því að það er ekki hægt að gera það nema í ljóði, og þá verður ljóðið til. Svo eru þarna textar sem hafa orðið til vegna þess að mig langaði að gefa þeim líf.“
Samtal við lífið
Ljóð Sjóns verða til samhliða skáldsagnaskrifum, en síðasta skáldsaga hans, Mánasteinn, kom út árið 2013.
„Á síðustu fimmtán árum hefur ljóðlistargáfa mín mikið til verið nýtt í þágu samstarfsverkefna, ég hef skrifað þrjú eða fjögur óperulíbrettó, ég hef skrifað óratóríó, og þar hef ég fengið útrás fyrir ljóðskáldið, en þessi sjálfstæðu ljóð, og ljóð sem geta endað í bók, verða til á löngum tíma, og svo er aldrei víst hvort þau rati í bók, hvort þau eigi heima í bók, en það sem gerðist núna í vor þegar ég byrjaði að kíkja á þetta, var einmitt það að ég áttaði mig á því að margt af því sem var í möppunni vildi vera í sama heimi, kom úr sömu átt, og það er svona eitthvert samtal við lífið, stundum frekar augljóst, stundum beinar minningar, eða beinar tilvísanir í staði og stund, en oft er það líka samtal við annan tíma eða aðra heima. Og eitt af því sem ég áttaði mig á var að mörg ljóðanna eru á einhvern hátt í samtali við gengin ljóðform, gengin bókmenntaform, þannig að það eru þarna ljóð sem eru kölluð söngvar, dansar, og annað slíkt, þannig að það er eitthvert samtal við bókmenntir líka í bókinni. En svo finnst mér líka vera þarna einhver stráksskapur innan um sem mér þótti gaman að sjá að var ennþá lifandi í mér. Það er ljóð þarna sem heitir acta poetica um það hlutverk skáldsins að spýta svörtum hrísgrjónum í eyru hlustenda og annað slíkt, það er smá svona súrrealísk uppreisn í henni. Og þeir þættir í henni sem eru helst veruleikatengdir finnst mér vera innsýn inn í hið ljóðræna ástand veröldinni.“
Prósar og reynsla
Reykjavíkurhöfn, safnahúsið við Hverfisgötu, og Hólavallagarður eru á meðal staða sem koma við sögu í nýju bókinni. Sjón segir að í nokkrum ljóða bókarinnar vísi hann beint í eigin reynslu, hann segist vilja opna á milli innri og ytri heima, og skoða úr hvaða ástandi í veruleikanum ljóðið sprettur.
Gamli tíminn er aldrei langt undan þegar Sjón og verk hans eru annars vegar. „Það eru þarna tilvísanir í gamla tíma, ég er náttúrlega alltaf með annan fótinn í gamla tímanum, sagan, gamli tíminn er ekki til, við erum búin að búa til eitthvað úr honum, höldum að það sé eitthvert haldfast hér og þar af því að eitthvert fólk segir okkur að svona hafi þetta verið í gamla daga.“ Sjálfur segir Sjón að honum finnist gaman að skoða gamla tímann ,,sem sjóð sagna, ég nálgast hann alltaf þannig, en ekki fastann veruleika, þess vegna er svo gaman að nota hann í bókmenntum.“
Crazy little things
Aðspurður um eigin stíl segist Sjón tengja hann myndlist. ,,Ég er alltaf að bregða upp einhverjum myndum, ég er alveg rólegur yfir því að það sé kannski engin handföst merking í þessum ljóðum. Þetta eru myndir, ég bregð upp myndum, andrúmslofti og tek bara lesandann með mér þangað inn, inni þennan litla heim sem hvert ljóð er, og það er alveg nóg fyrir mig. Ég hef stundum verið skammaður fyrir þetta, en mér finnst svo mikilvægt að það sé til eitthvað í tilverunni sem er bara það sem það er, og maður á helst ekkert að skilja það. Ég sá einhvers staðar haft eftir Henrik Nordbrandt, skáldjöfrinum danska, að hann hefði loksins skilið hvað ljóð er þegar hann hitti sérvitring á lítilli eyju einhvers staðar sem var alltaf að búa til litla hluti úr öllu mögulegu, líma hitt og þetta saman einhvernveginn, og þegar Henrik spurði hann, hvað er þetta? Þá sagði hann, crazy little things. Og þá fattaði Henrik að auðvitað er hvert ljóð bara crazy little thing og það þarf ekkert að vera meira en það.“