Tólf bílar lentu í árekstri við Miklagil á Holtavörðuheiði á fjórða tímanum í dag. Að sögn lögreglu slasaðist einn alvarlega.

Mikill skafrenningur og mjög blint var efst á heiðinni, tveir bílar lentu fyrst í árekstri og bílar sem komu að sáu ekki til og óku inn í þvöguna. Þar á meðal var einn vörubíll. Að sögn lögreglumanns á vettvangi var keyrt á tvo á heiðinni, annar þeirra slasaðist alvarlega.

Gísli Einarsson, fréttamaður var á Holtavörðuheiði fyrr í kvöld. „Mér skilst að í stórum dráttum hafi þetta gerst skömmu fyrir fjögur og þá lentu þrír bílar saman, rétt norðan við Miklagil og á meðan lögregla er að vinna á staðnum þá kemur flutningabíll á nokkurri ferð og aftan á einn af bílunum og bílar að koma á móti. Eins og þessu var lýst fyrir mér kastast bílar út um allt og tveir menn verða fyrir bíl, þar á meðal lögregluþjónn sem slasaðist og annar sem lenti undir flutningabílnum en slapp þó furðuvel og þarna voru þá komnir sjö bílar til viðbótar í þessa kös og samtals 10 bílar og svo voru tveir til viðbótar sem skullu saman þarna rétt fyrir neðan.“