Ísland vann rétt í þessu til bronsverðlauna í blönduðum flokki á EM í hópfimleikum sem fram fer í Maribor í Slóveníu.
Blandað landslið Íslands átti frábæran dag í Maribor og bætti sig í öllum greinum frá því í undankeppninni á fimmtudag þar sem íslenska liðið hafnaði í 5. sæti.
Íslenska liðið hóf keppni í gólfæfingum og fékk 21,066 stig fyrir dansinn. Í stökki á dýnu fékk Ísland, 17,8 stig sem er gríðarleg bæting frá því á fimmtudag. Stökk á trampólíni var lokagrein Íslands og einkunnin 17,2 niðurstaðan. Samtals fékk blandað lið Íslands 56,066 stig sem er bæting upp á tæp þrjú stig frá því í forkeppninni. Þetta er í fyrsta sinn sem blandað lið Íslands vinnur til verðlauna í mótinu. Svíar fögnuðu sigri eftir frábæra frammistöðu og Danir urðu í öðru sæti.
Kvennalandslið Íslands hefur keppni eftir hádegi og stefnir að gullverðlaunum. Íslenska liðið varð efst í undankeppninni en búist er við harðri samkeppni frá Dönum um Svíum um gullið í Maribor.