Stöðugur kraftur var í gosinu í Eyjafjallajökli í nótt til klukkan 4:30 en fór þá heldur að draga úr því. Gossúlan fór í 8,5 kílómetra hæð. Stöðugur mökkur var upp úr gosstöðvunum og öskufall töluvert undir Eyjafjöllum og er enn að sögn fréttamanna á gossvæðinu. Mjög dimmt var sunnan undir jökli. Öskufallið er mjög þétt frá Núpi í vestri austur í Vík en er heldur minna á Mýrdalssandi. Að sögn lögreglu er eins og keyrt sé inn í vegg úr vestri við Núp. Í mekkinum sést ekki til jarðar úr bíl. 22 eldingar mældust frá miðnætti til 4:30; fleiri en í allan gærdag. Þá hafa nokkrir litlir skjálftar mælst í Öskju; 1,2 eða 1,3 á richter og í Krossárjökli en þar hafa þeir verið 2,2 til 2,3.
Hér má sjá myndir af eldingunum í gærkvöldi.
Hér má sjá myndir sem Ómar Ragnarsson tók af gosmekkinum í morgun.
Hér má sjá myndir af gosmekkinum frá því í morgun.
Myndirnar sýna Berjanes fyrir og eftir öskufall. Myndirnar tók Vigfús Andrésson. Í tölvupósti frá honum segir:
,,Þessar myndir eru teknar í Berjanesi A- Eyjafjöllum. Önnur í gærkvöldi rétt fyrir öskufall, hin í skímu sem kom í morgun. Báðar myndirnar eru litmyndir. Núna er svartamyrkur og þrumur og eldingar ganga af og til yfir."