SA Ásynjur urðu í kvöld Íslandsmeistarar kvenna í íshokkí tíunda árið í röð eftir 1-3 sigur á Birninum í kvöld. SA Ásynjur unnu einvígið 2-0 og því kom ekki til oddaleiks.

Mun jafnari leikur

Leikurinn í kvöld var töluvert jafnari en leikir liðanna fyrr í vetur. SA Ásynjur hafa haft mikla yfirburði í íslensku íshokkí á undanförnum árum og er þetta í 15. sinn á 17 árum sem félagið hampar Íslandsmeistaratitlinum.

Gestirnir frá Akureyri komust yfir með marki Kol­brúnar Maríu Garðars­dótt­ur í öðrum leikhluta en heimakonur í Birninum jöfnuðu skömmu síðar og var Kristín Ingadóttir þar að verki. SA Ásynjur voru hins vegar töluvert sterkari í kvöld og skoruðu Sunna Björgvinsdóttir og Sunna Sveinsdóttir sitt markið hvor mörk sem tryggði Íslandsmeistaratitilinn.

„Hvar er þetta Bjarnarlið búið að vera í vetur?“

Linda Brá Sveinsdóttir, fyrirliði SA, var skiljanlega stolt af sínu liði en fagnaði einnig samkeppninni sem Björninn veitti liðinu.

„Ég segi nú bara: Hvar er þetta Bjarnarlið búið að vera í vetur? Þarna stóðu þær í okkur allan leikinn, þær gáfust aldrei upp. Þær mega nú eiga það að þær gefast aldrei upp. Við stjórnuðum leiknum og tókum þær svo svolítið á breiddinni.“

SA hefur haft mikla yfirburði í íshokkí kvenna undanfarin ár en Linda Brá vonast til að úrslitakeppnin í ár sýni að samkeppnin sé að aukast.

„Þetta var mest spennandi leikur sem ég hef spilað, markmaðurinn tekinn út í lokin sem gerir þetta alltaf meira spennandi. Ég vona svo sannarlega að þetta gefi góð fyrirheit fyrir næsta ár.“

„Höfum aldrei barist eins vel og í dag“

Þrátt fyrir tapið í var Elva Hjálmarsdóttir, fyrirliði Bjarnarins mjög sátt enda gaf liðið allt sem það átti í leikinn. 

„Satt að segja er tilfinningin mjög góð. Við stóðum í hárinu á þeim allan tímann, höfum aldrei nokkurn tíman barist eins vel og í dag. Þær eru með heilar landsliðslínur í sínu liði og við erum sáttar eftir þennan leik, förum sáttar frá borði.“

Elva tekur undir með Lindu Brá og báðar vona þær að munurinn á liðunum verði minni á næsta ári.

„Auðvitað vonum við það en okkur finnst sárt að sjá þær sameina liðin sín í úrslitunum. Lið sem spila sem tvö lið í deildarkeppninni allt tímabilið en svo sameinast þær í úrslitunum. Okkur finnst það frekar sárt, en svona er þetta bara. Við verðum duglegar að æfa í sumar og gerum þetta vel á næsta ári.“

Myndband með mörkum leiksins, fögnuði SA og viðtölum má sjá í spilaranum hér að ofan.