Mýkt, melódíur og einlægur flutningur

Alone
 · 
AUÐUR
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Mýkt, melódíur og einlægur flutningur

Alone
 · 
AUÐUR
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
10.02.2017 - 09:04.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Auður, sem er listamannsnafn Auðuns Lútherssonar, hefur vakið athygli undanfarin misseri fyrir kliðmjúk popplög sem keyrð eru í nútímalegum „r og b“ fasa. Nú er komin út plata, hin níu laga Alone, en hún er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég hef séð Auð (eins og þetta er víst beygt) á tónleikum og hann gerir vel í að viðra hjarta sitt er hann flytur lögin sín; einlægur söngur, framkoma og hreyfingar og áhorfendum er vafið um fingur. Þetta fer vel með sjálfri tónlistinni, sem er dúnmjúkt „r og b“ með löngunarfullum, ástríkum textum. Íslensk dæmi sem væri hægt að tiltaka, dæmi sem minna á Auð, væri t.d. Sturla Atlas, sem hefur gengið einna lengst rappara í að flytja hámelódískt tilfinningarapp og textalega a.m.k. kemur Aron Can í hugann. Þráin eftir elsku er líkamleg sem andleg og „Let‘s get it on“ Marvin Gaye kemur óneitanlega upp í hugann. Þetta silkimjúka, en um leið nett jaðarbundna „r og b“ kallar fram nöfn eins og Drake, Weeknd og Frank Ocean og Auður, líkt og sá síðastnefndi, notar stillu, þögn og hægagang á áhrifaríkan hátt. Platan rúllar í þægilegum innilokunarkenndarham, líkt og með Joy Division erum við föst í bergmálandi herbergi, og líkt og með „trap“-listamenn á borð við 21 Savage erum við nánast orðin „ambient“, hlutirnir eru niðurstípaður og nánast höfgafullir.  

Meistari

Ég verð líka að minnast á meistara James Blake í þessu samhengi, sem ég veit að hafði mikil áhrif á Auðunn upphaflega, og sneri honum frá harðkjarnalistinni og inn á þessar brautir. List Auðs er ekkert ólík; hvernig lögin fá að anda, hvernig þau hanga yfir fremur en að færast áfram, hvernig unnið er glæsilega með þagnir og stemningu. Í takt við nýja tíma er útgáfa plötunnar heldur ekkert eðlileg, henni var stillt fram sem nokkurs konar appi (fólk gat leitað að henni með símunum sínum á Airwaves), lög hafa verið að læðast út á vefinn og þá rúllar hún líka sem myndplata á youtube.

Svalt

Auður semur lögin auk þess að sjá um allan hljóðfæraleik og upptökur og sval- og ferskleikinn bókstaflega lekur af öllu hér. Þetta er sannfærandi heildarpakki og það er hægt að fara lengra með þetta, ef vindar verða hagstæðir næstu misseri.