Munkarnir fengu dýrlingsbein í nýju kirkjuna

18.06.2017 - 09:48
Kapúsínamunkarnir á Reyðarfirði vígðu í gær reisulega bjálkakirkju sem hefur verið í smíðum í meira en tvö ár. Kirkjugripirnir eru flestir úr Góða hirðinum eða heimasmíðaðir enda sóru munkarnir þess eið að lifa í fátækt en í kirkjunni má þó finna brot úr beini dýrlings.

Á Kollaleiru í Reyðarfirði hefur Kaþólska kirkjan starfrækt munkaklaustur undanfarin tíu ár. Munkarnir sem þar búa komu frá Slóvakíu og þegar okkur bar að garði voru þeir að gera allt tilbúið fyrir kirkjuvígsluna ásamt reglubræðrum sem komu frá heimalandi þeirra gagngert til að vera viðstaddir. Kirkjan er úr bjálkum sem munkarnir fengu að gjöf frá Slóvakíu og þeir smíðuðu hana að mestu sjálfir. „Loksins fengum við nóg pláss til þess að starfa af því að til dagsins í dag erum við að lesa messur í kjallaranum í klaustri okkar og þar er bara pláss fyrir 25 sitjandi manns. Kirkjan er helmingi stærri, það er alveg nóg fyrir venjulegar sunnudagsmessur. Það er ekki nóg fyrir til dæmis stórhátíðir eða brúðkaup en nóg fyrir venjulegt starf,“ segir séra Pétur Kovácik, umsjónarprestur í sókn heilags Þorláks á Austurlandi.

Kirkjan heitir Þorlákskirkja eftir heilögum Þorláki Þórhallssyni en árið 1984 lýsti Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði hann verndardýrling Íslands. Framan á altarinu hafa munkarnir komið fyrir broti úr beinum slóvakísks dýrlings Andrésar Svorads og innst er svokallað guðslíkamahús sem geymir altarissakramentið. Munkarnir vilja hafa kirkjuna fallega en lausa við íburð. „Heilagur Frans sem stofnaði reglu okkar hann sagði að bræður ættu að vera fátækir, að biðjast fyrir og elska bræður. Og við viljum gera það og þess vegna vorum við leita eftir gripum sem eru það ódýrasta sem við getum fundið. Og við fundum til dæmis hillur eða kaleik eða patínu í Góða hirðinum eða í Rauða krossinum, allt sem við notum í messu fyrir lítinn pening,“ segir Pétur.

 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV