Munar tugum milljóna á fasteignaverði

16.08.2016 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: Bjørn Giesenbauer  -  Flickr
Húsnæðisverð hefur hækkað hratt síðustu ár í öllum landshlutum en einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er að sjá merki um bólumyndun þar sem verðþróun virðist enn í góðum takti við undirliggjandi hagstærðir. Dæmi eru um tuga milljóna króna hækkanir á örfáum árum.

Fasteignaverð hækkaði í öllum landshlutum í fyrra samkvæmt samantekt Arion banka og hlutfallslega mest á Vestfjörðum, eða um 19%.  Á síðustu tólf mánuðum hefur verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 12% og fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins hefur hækkað um 8%. Dæmi eru um það að íbúð í miðbæ Reykjavíkur hafi selst á 50,3 milljónir í fyrra en er til sölu í dag á 70 milljónir.

Frá janúar 2011 hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 60% og verð utan höfuðborgarsvæðisins hefur hækkað um 40%. Lára Kristín Unnarsdóttir keypti sína fyrstu íbúð í miðbæ Reykjavíkur árið 2006. 

Ég keypti hana á 19 milljónir, yfirtók sjálf lán upp á 14 milljónir og foreldrar mínir hjálpuðu mér með rest. Núna árið 2016 þá ákváðum við að stækka við okkur, þá er fasteignaverðið komið upp í 30 milljónir. Fasteignamatið er 30 milljónir og hún selst á 35 milljónir þannig það var töluverð eignamyndun á þessum tíma. 

Og þetta eru ekki einu dæmin. Fjölskylda keypti 155 fermetra raðhús í Fossvogi í Reykjavík á 21 og hálfa milljón árið 2002. Í desember í fyrra var sama raðhús svo selt á 64 milljónir króna.

Vísbendingar eru um að eftirspurn sé að dreifast víðar, en í fyrra tóku nokkur svæði nær jaðri höfuðborgarsvæðisins við sér. Mestu verðhækkanir á fermetra frá 2010 til 2015 voru í Álfaskeiði í Hafnarfirði en þar hefur orðið um 65% hækkun.

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV